Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Harkalegt að segja að engar bætur hefðu fengist án laga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalmeðferðir í málum Kristjáns Viðars Júlíussonar og dánarbús Tryggva Rúnars Leifssonar, tveggja þeirra fimm sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti haustið 2018, fóru fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Arnar Þór Stefánsson lögmaður Kristjáns Viðars fer fram á, fyrir hönd skjólstæðings síns, að ríkið greiði honum ríflega 1,6 milljarða króna auk dráttarvaxta að frádregnum þeim 204 milljónum sem hann fékk greiddar í lok janúar 2019.

Krafa vegna tjóns og miska Kristjáns byggist á því að hann sat í fangelsi 2.710 daga, þar af 682 í einangrun. Auk þess hafi hann verið álitinn sekur maður í fjörutíu ár. Árið 1980 var Kristján dæmdur til 16 ára fangavistar í Hæstarétti.

Þá telur lögmaðurinn að orð Ólafs Jóhannessonar þáverandi dómsmálaráðherra árið 1977, skapi ríkinu bótaskyldu. Ráðherrann sagði þá að martröð hefði verið létt af þjóðinni eftir að þýski rannsóknarlögreglumaðurinn Karl Schütz tilkynnti niðurstöður sínar. Með þeim orðum hefði fólkið verið fordæmt.

Krafan sem reifuð var í héraðsdómi í morgun snýr þannig að því að ríkið greiði Kristjáni Viðari Júlíussyni rúmar 1.450 milljónir króna auk dráttarvaxta. Krafan sem Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmaður dánarbús Tryggva Rúnars, fer fram á, er örlítið lægri sem nemur skemmri fangavist hans.

Arnar Þór Stefánsson segir þau helstu rök ríkisins harkaleg, að hin sýknuðu hefðu engar bætur fengið án lagasetningarinnar um bótaskyldu ríkisins. „Það er ótrúleg afstaða,“ segir lögmaðurinn. Hann telur að dómur gæti fallið í málinu eftir um það bil tvær til fjórar vikur.