Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrrverandi ráðherra á nýju svelli með glæpasögu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Fyrrverandi ráðherra á nýju svelli með glæpasögu

05.10.2020 - 17:12

Höfundar

Spennusagnaverðlaunin Svartfugl voru afhent í dag og var það bókin Sykur sem bar sigur úr býtum. Katrín Júlíusdóttir, höfundur bókarinnar, er þekkt fyrir allt annað en skrif um fólskuverk og glæpi. Hún er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu og fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður. „Ég er þarna á alveg rosalega nýju svelli en það er gaman að byrja og fá svona viðurkenningu,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.

Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu Svartfugls-verðlaunin sem eru ætluð höfundum sem ekki hafa áður sent frá sér glæpasögu. Yrsa og Ragnar skipuðu dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar.

Katrín segir glæpasöguna ekkert hafa með sín fyrri eða núverandi störf að gera heldur finnist henni gaman að hafa ýmislegt fyrir stafni. „Það var bara almenn forvitni og ofvirkni sem varð til þess að ég lét slag standa.“ Hún byrjaði að skrifa fyrir fjórum árum að áeggjan mannsins síns, Bjarna Bjarnasonar, rithöfundar. Hún hafi alltaf, frá því hún man eftir sér, lesið mikið af glæpasögum en líka fylgst vel með raunverulegum glæpum. „Hann hvatti mig til að prófa og ég skrifaði eitthvað smá sem honum leist vel á.“

Katrín hefur lagt verkið til hliðar yfir löng tímabil og síðan byrjað aftur.  „Ég ákvað síðan að ljúka þessu þegar sagan var komin til mín.“ 

Katrín segist bæði vera glöð en líka í „mini innra taugaáfalli,“ eins og hún orðar það. Þetta hafi bara verið eitthvað sem hún hafi verið að dunda sér við og hún hafi aldrei talað opinskátt um þennan áhuga sinn á glæpasögum og glæpum. „Mér finnst eins og ég hafi verið afhjúpuð. Ég er þarna á rosalega nýju svelli.“

Katrín var um árabil þingmaður Samfylkingarinnar og fjármálaráðherra en segir þennan kafla í lífi sínu vera allt öðruvísi.  Allir hafi skoðanir á stjórnmálamönnum en henni finnst það hafa verið auðveldara. Þarna sé hugarburður sem verði til í höfðinu á henni og það sé persónulegra og jafnvel pínu kvíðvænlegra.  „Ég er aðallega að hafa gaman af þessu og vona að þeir sem hafi áhuga á þessum bókmenntaflokki hafi það líka.“