Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Frelsissvipting fólks sem ekkert hefur til saka unnið“

05.10.2020 - 21:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Brottvísunarbúðir eru varðhald sem frelsissviptir fólk sem hefur ekki brotið af sér samkvæmt lögum,“ segir Áshildur Linnet, teymisstjóri hjá Rauða krossinum, í samtali við fréttastofu. Hún segir það skýra afstöðu Rauða krossins að slíkt úrræði skuli alltaf vera það allra síðasta, og að áður en stjórnvöld svipti umsækjendur um alþjóðlega vernd frelsi, þurfi alltaf að reyna til þrautar öll mildari úrræði.  

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra viðraði möguleikann á því í ræðupúlti Alþingis í morgun að vista fólk á afmörkuðum svæðum eftir að ákveðið hefði verið að vísa því af landi brott. Slík ráðstöfun gæti komið í veg fyrir að fólk týndist hér á landi. Hún sagði að verklagið við framkvæmd brottvísana væri nú til skoðunar. 

Allra þyngsta úrræðið 

Áshildur segir að frelsissvipting eins og sú sem ráðherra vísar í sé allra þyngsta úrræðið sem hægt sé að beita umsækjendur um alþjóðlega vernd og að hérlendis þyrfti lagabreytingar til þess að stjórnvöld hefðu heimild til þess. Hún segir að það hafi sýnt sig í Evrópuríkjum að heilsu fólks hraki hratt þegar það er vistað í brottvísunarbúðum.  

Hún minnir á að stór hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi sé í mjög viðkvæmri stöðu. „Það er sérstaklega mikilvægt að hafa það í huga að verklagið mætti aldrei vera þannig að allir sem fengju synjun um alþjóðlega vernd yrðu vistaðir á slíkum svæðum. Það þarf alltaf að meta hvert mál og skoða stöðu fólks, til dæmis með tilliti til heilsufars. Það mætti líka aldrei vísa börnum á slík svæði,“ segir Áshildur. 

„Það þarf að hugsa um þau andlegu áhrif sem frelsissvipting hefur,“ segir Áshildur. „Í brottvísunarbúðum er alltaf hætta á að það sé komið fram við fólk eins og í fangelsum. En þetta er hópur sem hefur ekkert unnið sér til saka,“ bætir hún við. 

Ekkert sem mæli með aðgerðum sem þessum á Íslandi 

Áshildur segir ekkert mæla með því að hér á landi verði byrjað að senda fólk í brottvísunarbúðir: „Þetta er lítill hópur og stór hluti af honum er mjög viðkvæmur, fólk sem mætti aldrei senda í svona úrræði.“ Þá segir hún stjórnvöld hér á landi vera langt frá því að hafa reynt öll önnur möguleg og mildari úrræði.  

Hún segist furða sig á ummælum ráðherra, ekki síst í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafi fengið hrós fyrir það á alþjóðavettvangi að beita ekki úrræðum sem þessu. Alþjóðaráð Rauða krossins hafi haldið námskeið hér á landi þar sem stjórnvöld voru viðstödd og alþjóðaráðið hrósaði þeim sérstaklega. Hún segir að það sé skilningur á því á alþjóðavettvangi að Ísland þurfi ekki að beita slíkum ráðstöfunum, það sé auðveldara að hafa yfirsýn yfir fjöldann sem hingað kemur en víða annars staðar, vegna legu landsins.  

Nágrannaríkin fara varlega í þessum efnum 

Þegar Áshildur er spurð að því hvort brottvísunarsvæði séu notuð í nágrannaríkjum okkar segir hún að það sé farið mjög varlega í þeim efnum. Landsfélög Rauða krossins á Norðurlöndum hafi til dæmis unnið í samstarfi við stjórnvöld til að tryggja að öll úrræði séu prófuð áður en það kemur til greina að fólk sé frelsissvipt áður en það er sent úr landi. Ýmis mildari úrræði hafi aldrei verið könnuð hér, enda hafi ekki þótt tilefni til.  

Þá segir Áshildur að Rauði krossinn á Íslandi hafi, auk landsfélaga annarra ríkja, undirritað ályktun árið 2017 þar sem ríki voru hvött til að tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd væru aldrei vistaðir án þess að öll önnur úrræði væru prófuð fyrst. Í ályktuninni fólst einnig ákall um að mál hvers og eins væru alltaf skoðuð sérstaklega og fólk væri aldrei sjálfkrafa sent í vistunarbúðir, alltaf væri tekið tillit til viðkvæmrar stöðu fólks og að börn væru aldrei vistuð í brottvísunarbúðum.