Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frægasta rokkstjarna sem þú hefur aldrei heyrt á minnst

Mynd: ????? ??????????? / Wikimedia Commons

Frægasta rokkstjarna sem þú hefur aldrei heyrt á minnst

05.10.2020 - 13:24

Höfundar

Um þessar mundir eru 30 ár frá því að ein stærsta rokkstjarna heims lést sviplega í bílslysi, 28 ára að aldri. Victor Tsoi úr hljómsveitinni Kino var vinsælasti rokktónlistarmaðurinn á síðustu árum Sovétríkjanna, rödd sinnar kynslóðar, en nánast óþekktur á Vesturlöndum.

Victor Tsoi var fæddur 1962. Móðir hans var kennari, rússnesk í húð og hár, en pabbi hans verkfræðingur, kóreskur að uppruna. Tsoi hélst illa í skóla, var illa við að vera troðið í fyrirfram skilgreinda kassa. Hann var sjálflærður á gítar og féll fyrir vestrænni rokktónlist sem var litin hornauga í Sovétríkjunum. Hann var rekinn úr listaháskóla en lærði tréútskurð. Hann fékk starf sem kolakyndari og vann við það nánast alla tíð, enda var ómögulegt fyrir óopinbera tónlistarmenn að þéna pening á tónlistinni. Rokkið var ekki vinna, heldur lífsstíll.

Leyniþjónustan á rokkklúbbnum

Í neðanjarðarrokksenu Leníngrad voru tónleikar haldnir í heimahúsum og tónlistin gekk kaupum og sölum í sjóræningjaútgáfum á kassettum og þar áður á heimagerðum plötum úr röntgenmyndafilmum. Í kringum 1980 sáu stjórnvöld að ómögulegt væri að standa í vegi fyrir rokkinu og eflaust væri betra að vita hverjir tilheyrðu þessum hættulega hópi rokkara frekar en að þeir feldu sig neðanjarðar. Fyrsti rokktónleikastaður heimsveldisins, Rokkklúbburinn í Leníngrad, var stofnaður 1981 undir vökulu auga leyniþjónustunnar KGB. Í klúbbnum var fylgst með því að tónleikar færu ekki úr böndunum, áhorfendur sætu í sætunum og sýndu ekki of mikinn æsing og hljómsveitir þurftu að fá samþykki ritskoðara fyrir textum sínum.

Mynd með færslu
 Mynd: ????? ??????????? - Wikimedia Commons

Kom með ný gildi

Þegar tónlistarmenn máttu loksins fara að spila á stórum tónleikum og þéna peninga hafði tónlist Kino þróast, frá hráu og skítugu þjóðlaga-pönkrokki, yfir í drungalega nýbylgju með sér-rússneskum hljómi, einkennandi söngstíl og baritónrödd Victors Tsoi. En það voru kannski umfram allt textarnir sem töluðu til fólks, enda hefð fyrir því að orð hafi meira vægi en tónar í Rússlandi.

Á níunda áratugnum jókst þrýstingur á breytingar og Gorbachev reyndi að breyta ásýnd Sovétríkjanna með hinni svokölluðu endurskipulagningu, perestrojku, og opnun, glasnost. Fólk var tilbúið í breytingar en breytingarnar hleyptu gildum og hefðum samfélagsins í uppnám. Eins og Evgenía Mikaelsdóttir lýsir í viðtali í Lestinni, þá var almenningur í leit að nýjum gildum og þar kom ljóðskáldið og tónsmiðurinn Tsoi inn, réttur maður á réttum tíma, hjarta hans sló greinilega í takt við þjóðarsálina.

Lög eins og Gruppa Krovi (ísl. Blóðflokkur) og Peremen (ísl. Breytingar) voru kannski stærstu slagararnir, en það síðarnefnda hefur orðið að mótmælasöng um öll hin gömlu Sovétríki, hvort sem það eru íhaldsmenn eða róttæklingar sem mótmæla. Og hljóma nú meðal annars í mótmælum í Hvíta-Rússlandi.

 

Upptökum smyglað vestur

Tónlistin náði ekki vinsældum utan Sovétríkjanna. Reyndar kom út á Vesturlöndum árið 1986 platan Red Wave en það voru upptökur og heimagerð tónlistarmyndbönd með nýbylgjusveitunum í Leníngrad sem bandaríska tónlistarkonan Joanna Stingray hafði smyglað út. Á meðan hún smyglaði út upptökum laumaði hún inn upptökutækjum fyrir rússneska vini sína sem þeir gátu nýtt til að taka upp í mun meiri gæðum en annars.

Kino fór einnig á tónleikaferð um Vestur-Evrópu en Tsoi líkaði það illa, fannst hljómsveitin vera eins og hvert annað furðuatriði sem fólk kæmi að sjá í sirkus. En kannski umfram allt var Victor Tsoi Sovétmaður og Kino var sovésk hljómsveit. Þó að rokkararnir væru kannski ekki alltaf ánægðir með ástandið í landi sínu virðist það aldrei hafa verið markmið þeirra að flýja landið eða breyta því í ný Bandaríki.

 

„Laug aldrei og seldi aldrei sál sína“

Tsoi lést í bílslysi í Lettlandi í ágúst 1990, þá var hann 28 ára. Bíll hans rann á miklum hraða yfir á rangan vegarhelming og fyrir rútu af gerðinni Ikarus 250. Tsoi lést samstundis. Sorgin var gríðarleg meðal ungs fólks í landinu. Þúsundir voru við jarðarförina þrátt fyrir að hún ætti að fara fram í kyrrþey. Eitt dagblaðið skrifaði: „Fyrir ungt fólk í landinu okkar var hann mikilvægari en nokkur stjórnmálamaður, stórstjarna eða rithöfundur, því hann laug aldrei og seldi aldrei sál sína.“

Enn þann í dag er Victor Tsoi dýrkaður og dáður í fyrrum Sovétríkjunum, fólk vitjar leiðis hans og veggs sem tileinkaður er honum í Moskvu. Þegar kassagítar er dreginn upp eru lög Tsoi sungin og fólk þekkir textana. Þekktir tónlistarmenn flytja reglulega ábreiður af lögum Kino.

 

Fjallað var um Victor Tsoi og sovéska rokktónlist í Lestinni á Rás 1, rætt var við Evgeníu Mikaelsdóttur og Gísla Magnússon. Þáttinn má heyra hér fyrir neðan.