Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Flest kórónuveirusmit á höfuðborgarsvæðinu

05.10.2020 - 17:01
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að kórónuveirufaraldurinn haldi áfram að vaxa. Hann breiðist aðallega út á höfuðborgarsvæðinu. Í gær voru 59 smit greind. Aðeins þrjú af þeim voru ekki á höfuðborgarsvæðinu.

 

Þórólfur segir að fólk sé að smitast á vinnustöðum, í matarboðum hjá vinahópum og á líkamsræktarstöðvum. Til dæmis komu upp nokkur smit á hnefaleikastöð í Kópavogi.

Það þarf að herða sóttvarnareglur til að fækka smitum

Smitum hefur fjölgað svo mikið og svo hratt að talið var nauðsynlegt að herða sóttvarna-reglurnar í dag. Það er mikið álag á Landspítalanum. Þar liggja inni 15 manns með COVID-19. Af þeim eru þrír á gjörgæsludeild. „Það eru engin merki um að sjúkdómurinn sé eitthvað vægari en hefur verið,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Reglurnar sem tóku gildi í dag eru stífar. Þær reglur sem voru í gildi áður dugðu ekki til að fækka smitum.

Þórólfur segir að margir gagnrýnt nýju reglurnar. Til dæmis að þær skuli ná yfir allt landið þegar smitin eru flest á höfuðborgarsvæðinu. Þórólfur svarar því þannig: „Ég tel það mikið óráð að sleppa einstökum landsvæðum. Því það gæti komið smit í öðrum landshlutum. Við gætum þá endað í eltingaleik við veiruna.“ 

Þá segir Þórólfur að margir hafi óskað eftir undanþágu frá nýju reglunum. Það er að segja, beðið um að þurfa ekki að fylgja reglunum. Hann biður fyrirtæki og einstaklinga að biðja helst ekki um það og gleyma ekki hvert takmarkið er. Allir landsmenn verði að standa saman. Það skipti mestu máli því þannig náist árangur. Þannig takist að kveða kórónuveirufaraldurinn niður.

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum

Faraldurinn er í vexti og það er mikið álag á heilbrigðiskerfinu. Þórólfur leggur áherslu á að það séu engar vísbendingar um að kórónuveiran sé vægari núna en áður.

Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að margt fólk væri komið með faraldursþreytu. Það þýðir að fólk sé orðið þreytt á ástandinu sem fylgir kórónuveirufaraldrinum. Sumt fólk sé líka ósátt við að reglurnar séu hertar. „Það er þrautseigja og þolinmæði sem gildir,“ segir Alma um það. Besta leiðin til að ná aftur að lifa eðlilegu lífi sé að ná tökum á kórónuveirunni. „Samstaðan er besta sóttvörnin,“ segir hún. Alma segir líka, „verum heima ef við erum með einkenni.“

Hún hvetur fólk til að vera gott og tillitssamt við þá sem eru í sóttkví og einangrun. Þeir sem þurfa að vera mikið heima ættu að gera uppbyggilega hluti, hreyfa sig eins og þeir geta og vera í sambandi við fjölskyldu sína og vini.

Erfitt að sjá hver þróunin verður í faraldrinum

Þórólfur segir að það hefði kannski verið betra að herða sóttvarnareglurnar fyrir viku. Það hefði þó líklega ekki breytt miklu. Það sé erfiðara að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum núna en í vor. Aðalatriðið sé að ná samstöðu í þjóðfélaginu.

Að lokum segir Þórólfur að það sé alltaf að koma betur í ljós að grímurnar geri gagn. Þess vegna sé verið að auka grímuskyldu. Engin rannsókn hafi þó sýnt fram á að grímur á almannafæri komi í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Hann bendir á að þríeykið, þau Alma, Víðir og hann sjálfur, hafi beðið fólk um að vera eins mikið heima og það getur. Það sé besta leiðin til að fækka smitum.