Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fleiri og ýtnari karlmenn vilja kaupa vændi í COVID

05.10.2020 - 20:10
Mynd: RÚV / RÚV
Eftirspurn eftir vændi hefur aukist í faraldrinum og margar konur sjá engin önnur ráð til framfærslu, eftir að hafa misst vinnuna. Kvíði vegna smita og mögulegra samtala við rakningateymið, bætist ofan á vanlíðan þeirra sem selja líkama sinn. Vændisgerendur eru farnir að beita meiri þrýstingi en áður.

Íslenskar vændiskonur finna margar fyrir verulegum kvíða vegna mögulegra samtala við smitrakningateymið og kröfunnar um að upplýsa um samskipti sín. Yfirlögregluþjónn segir ástæður samskipta aldrei til skoðunar. Eftirspurn eftir vændi hefur aukist síðustu mánuði og kaupendur eru orðnir ágengari. 

Sjá enga aðra leið eftir atvinnumissi

Atvinnuleysi, efnahagsþrengingar og félagsleg einangrun í faraldrinum hefur orðið til þess að margar þeirra kvenna, sem leita árlega til Stígamóta eftir aðstoð vegna vændis, sjá enga aðra leið í stöðunni en að selja sig. 

„Þær eru að íhuga að fara aftur í vændi eða jafnvel farnar aftur í þær aðstæður. Af því ekkert annað býðst. Þó að þær vilji það alls ekki. Og eru hér að vinna úr afleiðingum þess að hafa verið í vændi. Þetta er kannski eina lausnin sem þær sjá þegar efnahagsástandið verður eins og það er núna,” segir Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. ” 

Og það er alltaf eftirspurn á þessum markaði?  

„Það virðist ekki vera neitt vandamál.”

Meiri eftirspurn og meiri hótanir 

Eva Dís Þórðardóttir hefur leitt sjálfshjálparhópa í Stígamótum fyrir konur sem eru að koma úr vændi, sem hún hefur sjálf reynslu af. Hún segir viðmót karlanna hafa breyst í faraldrinum.  

„Vændisgerendurnir virðast vera ágengari. Ágengari í að fá að kaupa þær sem þeir hafa keypt áður. Er eftirspurnin meiri eða minni núna? Meiri. Hún er meiri.”

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarna, segir aðspurður að það sé alls ekki gott að eftirspurn eftir vændi sé að aukast í COVID.

„Bara yfir höfuð að þessi starfsemi þrífist og það sé eftirspurn eftir henni. Það er bara alls ekki gott.”

Eva segir þrýstinginn birtast í hótunum og meiri ýtni. Lokanir skemmtistaða, aukin einangrun og vanlíðan geti allt orsakað aukna eftirspurn. Brotthvarf ferðamanna skipti litlu máli. 

„Þetta eru íslenskir karlmenn, aðallega, sem eru að leita að vændiskaupum.”

Smeykar og líður ekki vel

Eva er í reglulegum samskiptum við hátt í tuttugu íslenskar konur sem eru í vændi, innan og utan höfuðborgarsvæðisins. 

„Þær eru smeykar, þeim líður ekki vel. Þær vita að ef það kemur upp smit hjá þeim þá lenda þær í erfiðleikum með að útskýra hvaðan þær hittu þá sem þær hafa hitt.”

Steinunn tekur undir þetta. 

„Þær lifa margar hverjar algjörlega tvöföldu lífi, til að fela vændið fyrir fjölskyldu, vinum og frá venjulega sjálfinu sínu. Svo bætist núna smitrakningin inn í þessa jöfnu,” segir Steinunn. 

Eva Dís veltir upp þeirr spurningu að ef kona smitast á þennan hátt, fái hún einhvern trúnað. „Fær hún ráðleggingar? Getur hún opnað sig við trúnaðarmann innan smitrakningarteymisins?”

Steinunn segir þetta bætast ofan á viðverandi kvíða kvennanna.

„Þetta veldur þeim miklum ótta að smitrakningateymið komi inn í þetta og velti fyrir sér hverja þær eru búnar að vera að hitta og af hverju og allt það.”

Ástæður stefnumóta aldrei skoðaðar

Víðir undirstrikar að ástæður þess að fólk hittist séu aldrei til skoðunar. 

„Það er engin hætta á að fólk lendi í vandræðum vegna þess og getur verið alveg hreinskilið með þetta við okkur. Bara hversu langur tími þetta var og hvort fólk var með einkenni og allt þetta sem skiptir okkur máli. En af hverju fólk var að hittast er ekki það sem við erum að horfa til. Skilaboðin okkar í svona málum eru að ekki vera hrædd við að láta okkur vita. Verið í samskiptum og segið okkur allt. Það á enginn að vera hræddur að tala við okkur, að segja okkur hverjir voru nálægt og annað slíkt. Þetta er heilbrigðismál fyrst og fremst.”

Eva Dís krefst aðgerða. „Af því að landið er svo lokað, þá verðum við að fara að horfast í augu við að þetta er íslenskur raunveruleiki. Þetta er okkar vandamál. Þetta er ekki vandamál einhverra gesta hérna.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV