Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórtán heimilislausir menn boðaðir í sóttkví

05.10.2020 - 12:44
Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Fjórtán gestir gistiskýlisins á Granda í Reykjavík þurfa að fara í sóttkví eftir að starfsmaður greindist með smit. Níu eru þegar komnir í sóttvarnarhúsið við Rauðarárstíg en ekki er vitað hvar hinir fimm eru.

Gistiskýlið á Granda er fyrir heimilislausa karlmenn með fíknivanda. Skýlinu var lokað í gær eftir að smitið greindist. Fjórtán gestir voru útsettir fyrir smiti og hefur þeim verið boðið að fara í sóttkví í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg.

Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður sóttvarnarhúsa segir að níu séu þegar komnir.

„En hinna er leitað svo að þeir geti allavega komist í húsaskjól,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að þeir sem gista í sóttvarnarhúsinu þurfi að halda sig inni á herbergjum og megi ekki fara út. Þeir sem voru útsettir fyrir smiti í gistiskýlinu þurfi að vera í sóttkví fram á föstudag þegar seinni sýnataka fer fram.

Gylfi segir að sérstaklega verði hugað að þörfum þessa hóps og reynt að koma í veg fyrir að þeir rjúfi sóttkví.

„Við erum með starfsfólk sem að sinnir þeim og við erum líka með öryggisgæslu í húsinu. Hvort sem að þessi hópur er hjá okkur eða ekki. Við reynum bara að vinna með þeim og það er reynsla okkar að ef að þú kemur fram af virðingu við fólk þá færðu virðingu til baka,“ segir Gylfi.

Hann segir að einnig verði horft sérstaklega til þess að þessir menn glími við fíknivanda.

„Við erum í samstarfi við t.d. fíknigeðdeildina á Landspítalanum og þau eru okkur innan handar og eru hér með vakt á meðan að þessir einstaklingar eru hjá okkur. Þeir fá þá meðferð sem talin er þurfa hverju sinni,“ segir Gylfi. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV