„Er kallinn bara kominn úr skápnum?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Er kallinn bara kominn úr skápnum?“

05.10.2020 - 15:15
Árið 2018 deildu 365 strákar persónulegri reynslu sinni á Twitter undir myllumerkinu #karlmennskan og sögðu frá því hvernig staðalímyndir um karlmennsku komu í veg fyrir tækifæri í lífinu og hamingju. Þorsteinn V. Einarsson, forsprakki byltingarinnar, segist hann sjálfur hafa verið hluti af vandamálinu þar til hann setti á sig naglalakk og fékk hugljómun.

„Mér fannst sjálfur jafnréttisbaráttan vera komin út í algjörar öfgar og femínistar vera að ráðast á mig, og ráðast á karla,“ segir Þorsteinn. Það sem breytti lífi hans og viðhorfi til jafnréttismála var persónuleg reynsla hans af naglalakki og viðbrögðum samfélagsins við karlmanni með málaðar neglur. „Ég var að vinna í félagsmiðstöð fyrir nokkrum árum og það var dragkvöld en það vildi enginn unglingur taka þátt í dragkvöldinu svo ég og annað starfsfólk vorum hálfpartinn þvinguð til að taka þátt.“

Þorsteinn var farðaður og naglalakkaður og klæddi sig í kjól fyrir kvöldið. Þegar herlegheitunum lauk áttaði hann sig á því að það væri enginn naglalakkahreinsir til í félagsmiðstöðinni og ekki heima hjá honum heldur, og það vita þau sem hafa prófað naglalakk að það er enginn hægðarleikur að hreinsa það af. „Ég ákvað því að vera með naglalakk á mér í eina helgi,“ rifjar hann upp. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Hvort sem það voru ókunnugir eða vinir og fjölskylda Þorsteins, öllum fannst að hans sögn óþægilegt að sjá hann með naglalakk. Algengasta spurningin sem hann fékk var: „Hvað, kallinn bara að koma út úr skápnum?“ Þorsteinn var gáttaður á spurningunni. „Eins og það séu bara hommar sem noti naglalakk!“

Hann hefur að eigin sögn verið heltekinn síðan af hugmyndum um karlmennsku og spurningunni hvað felist í því að vera alvöru maður. Hann kláraði meistaranám í kynjafræði og er með Instagramaðganginn Karlmennskan þar sem hann skoðar muninn á gamaldags karlmennsku og jákvæðri karlmennsku.

Í síðustu viku voru fjögur myndskeið tengd Karlmennskunni frumsýnd á UngRÚV og er hægt að horfa á þau hér í spilaranum.