Celebs – Tálvon hinna efnilegu

Mynd: Celebs / Celebs

Celebs – Tálvon hinna efnilegu

05.10.2020 - 16:10

Höfundar

Systkynabandið Celebs, frá Suðureyri, hefur sent frá sér sína fyrstu plötu sem fékk nafnið Tálvon hinna efnilegu. Eins og stundum hefur komið fram hafa öll þrjú unnið Músiktilraunir; Katla með hljómsveitinni Between Mountains og Hrafnkell og Valgeir með hljómsveitinni Rythmatik

Tálvon hinna efnilegu kom út 10. september og er sjö laga plata sem systkinin segja óð til tónlistar níunda og tíunda áratugarins. En platan fjallar jafnframt um væntingar og vonbrigði, tálvon þeirra sem dreymir um poppið. Platan var unnin að mestu innanhúss en upptökum stjórnaði Valgeir Skorri Vernharðsson ásamt því að pródúsera plötuna.

Celebs eru þau Hrafnkell Hugi úr Rythmatik, Katla Vigdís úr Between Mountains og Valgeir Skorri Vernharðson úr Mammút og Rythmatik. Þau semja efnið í sameiningu ásamt því að sjá um hljóðfæraskipan að mestu. Auk þeirra koma fram á plötunni Alexandra Baldursdóttir úr Mammút sem leggur til gítara í laginu Skuggavera, Ýmir Gíslason eða Umer Consumer syngur í og er meðhöfundur lagsins Draumar, Árni Freyr Jónsson úr Rythmatik spilar á gítar í laginu Sætur og loks spilar Árni Hjörvar Árnason úr hljómveitinni The Vaccines á bassa.

Tálvon hinna efnilegu, sem er plata vikunnar, að þessu sinni var tekin upp að mestu í æfingahúsnæði hljómsveitarinnar úti á Granda en einnig fyrir vestan í æfingarými Between Mountains. Plötuna ásamt kynningum Kötlu og Valgeirs á tilurð laganna er hægt að heyra á Rás 2 eftir tíufréttir í kvöld en einnig í spilara.

Celebs - Tálvon hinna efnilegu