Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bóluefni gegn inflúensu seint á ferðinni en óvenjugott

05.10.2020 - 21:43
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Bóluefni gegn inflúensu er óvenjuseint á ferðinni í ár. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að bóluefnið sé komið til landsins en ekki enn farið í dreifingu. Hún býst við því að aðsókn í bólusetningu verði sérstaklega mikil í ár.

Dreifingarfyrirtækið Distica flytur bóluefni gegn inflúensu til landsins og dreifir því til heilsugæslustöðvanna. Ragnheiður Ósk segir að Distica bíði nú eftir gögnum sem fyrirtækið þurfi að fá áður en dreifingin hefst og að gögnin séu seint á ferðinni.

Ragnheiður hefur ekki áhyggjur af seinaganginum. Hún segir að inflúensan sé ekki komin og að það liggi ekkert á því að fá bólusetningu. Oftast byrji  inflúensan ekki að láta á sér kræla fyrr en í kringum áramót. 

Aðspurð hvort hún óttist að fólk veigri sér við að fara í bólusetningu og forðist heilsugæslustöðvar vegna COVID-19 segist Ragnheiður Ósk frekar búast við því að aðsóknin verði meiri en venjulega. „Fólk vill ekki fá hvort tveggja, inflúensu og COVID-19,“ segir hún. 

Hún segir að bóluefnið í ár sé mjög gott. Það sé misjafnt eftir árum hversu vel bóluefnið virki og að bóluefnið í ár sé sérstaklega sterkt: „Það virkar á fleiri stofna en oft áður,“ segir hún. Þá sé einnig búist við að það virki óvenjulengi, í 8-10 mánuði. 

Heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu eru opnar milli 9 og 15 alla virka daga og Ragnheiður segir að þegar byrjað verði að bólusetja geti fólk komið hvenær sem er á þeim tíma án þess að bóka tíma sérstaklega.