Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Báturinn sem steytti á skeri kominn í höfn

Mynd með færslu
Djúpivogur. Mynd úr safni. Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mannbjörg varð er leki kom að fiskibát þegar hann tók niðri á grynningu austur af Papey laust fyrir klukkan níu í kvöld. Var fjögurra manna áhöfninni bjargað um borð í annað skip og báturinn dreginn til Djúpavogs, þar sem hann lagðist að bryggju um miðnæturbil.

 

Það vildi fjórmenningunum til happs að veður var gott á slysstað og annar bátur skammt undan, sem kom fljótlega á vettvang og tók þá um borð. Nokkru síðar kom öflugra fley á vettvang, skipið Sigríður, sem er í eigu Fiskeldis Austfjarða. Sigríður tók fiskibátinn í tog, dælur voru keyrðar til að halda bátnum á floti og stefnan tekin á Djúpavog. Björgunarskipið Hafdís fylgdi í humáttina á eftir ásamt tveimur fiskibátum öðrum.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu að drátturinn hafi gengið vel og öll  hersingin komið til hafnar á Djúpavogi fyrir miðnætti.

Þyrla og þrjú björgunarskip kölluð út

Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Landsbjargar á Suðaustur- og Austurlandi voru kallaðar út þegar tilkynning barst um óhappið, en tveimur af þremur björgunarskipum var snúið við þegar tekist hafði að koma áhöfninni úr hættu og dráttartaug í bátinn.

Björgunarskipið Hafdís fylgdist hins vegar áfram með björgunaraðgerðum, sem fyrr segir, og þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Hornafirði þar sem hún beið átekta. Henni var síðar flogið til Djúpavogs með öflugan dælubúnað innanborðs, sem ætlað er að halda bátnum á floti.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV