Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Áslaug viðrar möguleika á afmörkuðum brottvísunarsvæðum

05.10.2020 - 12:28
Mynd: Alþingi / Alþingi
Dómsmálaráðherra nefndi þann möguleika á þingi í morgun að vista fólk á afmörkuðu svæði eftir að ákveðið hefur verið að vísa því af landi brott, til að koma í veg fyrir að það týnist hér á landi. Til þess þyrfti lagabreytingu, að sögn ráðherra, en verklagið við framkvæmd brottvísana sé nú til skoðunar.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Áslaugu um það í óundirbúnum fyrirspurnartíma í morgun með hvaða hætti væri haft eftirlit með eða leitað að fólki sem til stæði að vísa brott af landinu en hefði látið sig hverfa. Þorsteinn vísaði til frétta þess efnis að stoðdeild Ríkislögreglustjóra væri með 64 manns á skrá sem ekki hefðu fundist þegar átti að flytja þá úr landi. „Þá hlýtur maður að spyrja: Eru það menn sem hafa orðið uppvísir að brotum eða eru það aðilar sem hafa verið lengur á landinu en dvalarleyfi þeirra leyfði?“ spurði Þorsteinn á þingi í morgun.

Hættara við mansali og hýrudrætti

Í fréttum kom einnig fram að ekki væri hægt að segja til um hversu margir úr þessum hópi væru enn á landinu, enda gætu einhverjir hafa komist burt á fölsuðum skilríkjum. Sumir hafi þó fundist síðar og verið fluttir úr landi.

„Maður hefur á tilfinningunni að þetta hafi væntanlega gerst þannig að lögreglan hafi verið að ganga niður Laugaveginn og rekist á einhverja slíka aðila, orðið áskynja um dvöl þeirra hér samkvæmt því og vísað þeim úr landi,“ sagði Þorsteinn. „En þetta er flóknara en svo vegna þess að þetta fólk þarf jú húsaskjól og mat til að komast af og maður veltir fyrir sér við hvaða kringumstæður og aðstæður þetta fólk dvelur hér.“

Þorsteinn spurði hvort ástæða væri til að hafa formlegra eftirlit með þessum hópi. „Ég vil líka nefna annan vinkil,“ sagði Þorsteinn. „Fólki í þessum kringumstæðum er hættara við mansali, við því að verið sé að hýrudraga það og svo framvegis. Þess vegna spyr ég ráðherra aftur hvort ekki standi til að gera gangskör í að efla eftirlit þannig að þessir aðilar séu ekki á þennan ólöglega hátt á Íslandi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þorsteinn Sæmundsson.

„Auðvitað er fylgst vel með“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði að mál sem þessi færu alltaf í tiltekið ferli. „Auðvitað er fylgst vel með og lögreglan lýsir eftir aðilum. Það er ekki þannig fólk sjáist á vappi á Laugaveginum, eins og hæstvirtur þingmaður vill vera láta.“

Tíu manns ynnu við þetta hjá stoðdeildinni og hún hefði nýlega átt fund með þeim vegna þess að hún hefði haft ýmsar spurningar um verklagið. Ætla má að fundurinn hafi verið í framhaldi af opinberri umræðu um mál Khedr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi sem til stóð að vísa af landi brott en fór í felur þar til kærunefnd útlendingamála veitti henni dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Yrði auðveldara að framfylgja brottvísun

Hún sagði líka að ef skoða þyrfti úrræði til að bregðast við þessu þá mætti benda á að í Evrópulöndum hefði verið umræða um að hafa fólk, sem búið væri að ákveða að vísa brott, á afmörkuðum svæðum fram að brottvísun. Við hefðum ekki breytt lögum okkar til að heimila þetta.

„Það er víða í löndunum í kringum okkur þar sem þessu er háttað þannig að aðilar eru á ákveðnu svæði eftir að þeir fá til dæmis neitun frá báðum stjórnsýslustigum til að það sé hægt að framkvæma þetta með auðveldari hætti,“ sagði hún. „Það gerist þá ekki að aðilar séu týndir í samfélaginu og ekki sé hægt að framfylgja ákvörðunum. Það eru lagabreytingar sem þyrfti að ráðast í en annars erum við að skoða verklagið í heild sinni í þessu eins og öðru,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.