Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um skammtaeðli forseta Íslands

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV

Um skammtaeðli forseta Íslands

04.10.2020 - 17:40

Höfundar

Halldór Armand segir óstöðugleika vera að aukast í heiminum og þess vegna sé mikilvægt að  leikreglur lýðræðisins séu skýrar. Því sé nauðsynlegt að hlutverk og valdheimildir séu skilgreindar betur en í núverandi stjórnarskrá.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Hver er valdamesta embætti á Íslandi? 

Þetta er einföld spurning, ekki satt? Þitt svar er forsætisráðherra. Hann leiðir ríkisstjórnina og er þannig æðsti valdhafi Íslendinga. Þetta væri rétt svar í barnabók um íslenskt samfélag. En þú hefur rangt fyrir þér. Forsætisráðherra er ekki valdamesta embættið. Það er forseti Íslands sem er valdamesta embætti á Íslandi. Hann getur beitt þingið neitunarvaldi, neitað að skrifa undir lög sem til dæmis forsætisráðherra leggur fyrir hann og þannig lagt lagafrumvörp í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Þetta stendur í hinni margfrægu 26. grein stjórnarskrárinnar. Og það sem er einna merkilegast við þessa grein er að í henni eru ekki sett fram nein sérstök skilyrði sem verða að vera fyrir hendi svo forsetinn geti neitað að staðfesta lagafrumvörp. Það er bara algjörlega undir þeirri persónu komið sem gegnir hlutverki forseta Íslands hverju sinni hvenær og af hverju hann ætlar eða ætlar ekki að skrifa undir lagafrumvörp.

Þú segir: Nei, þetta er bara útúrsnúningur. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að skrifa undir Icesave-samningana og vísaði þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2010, það voru sérstakar aðstæður, það var undantekning. Traust til stjórnmála var ekkert á þessum tíma.

Ég segi: Þú hefur rangt fyrir þér. 

Að móta íslenska stjórnskipun eftir eigin höfði

Á vísindavef Háskóla Íslands er að finna grein sem kallast: Hvað gerir forseti Íslands og hvaða völd hefur hann? Greinin er frá árinu 2012 og höfundur hennar er Guðni Th. Jóhannesson, sem nú gegnir einmitt þessu sama embætti. 

Greinin hefst á þessum orðum: „Hver forseti mótar embættið eftir eigin höfði.“

Þetta er alveg rétt. Eitt af því sem forseti mótar eftir eigin höfði er til dæmis hvort hann er valdamesta embætti á Íslandi eða ekki, það er að segja, hann túlkar áðurnefnda 26. grein stjórnarskrárinnar algjörlega eftir sínu eigin höfði. Það skiptir engu máli þótt þessi grein sé í algjörri mótsögn við aðrar greinar stjórnarskrárinnar, til dæmis þá sem segir að forseti feli ráðherra að fara með vald sitt eða þá sem segir að forsetinn beri enga ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum. 

Ef einn maður getur komið í veg fyrir að þingið setji lög, einn maður sem getur ákveðið það eftir sínu eigin höfði hvort hann skrifar undir lög eða ekki – jafnvel eitt af mikilvægustu lagafrumvörpum lýðveldissögunnar eins og gerðist árið 2010 – og það meira að segja án þess að bera ábyrgð á þeirri ákvörðun sjálfur, þá sé ég ekki hvernig því verður andmælt að forsetinn sé augljóslega valdamesta embættið samkvæmt íslenskri stjórnskipan.

Þegar ég var að byrja í lagadeild Háskóla Íslands á sínum tíma, stuttu áður en Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir Icesave-samningana, var okkur kennt að þessi 26. grein endurspeglaði ekki raunverulegt vald. Það sama gilti um hana og svo mörg önnur stjórnarskrárákvæði sem vörðuðu hlutverk forseta Íslands – völd hans væru einungis formleg, þetta væri ekkert nema arfleið frá táknrænu hlutverki konungs. Um þetta höfðu fræðimenn og spekingar verið sammála um áratugum saman. 

Ungir laganemar þurftu hins vegar ekki að bíða lengi þangað til forsetinn sjálfur tók af skarið. Þegar stjórnvöld ætluðu sér að leggja skuldir fjárfestingabanka á íslenskan almenning neitaði hann að skrifa undir Icesave-frumvarpið. Hugmyndin um hið táknræna og inntakslausa vald forsetans varð að ryki sem blés á haf út. Síðan endurtók hann leikinn og synjaði aftur að skrifa undir næsta samning. Ástæðan sem hann gaf upp var sú að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar. Vitaskuld höfðu tugþúsundir manna skorað á forsetann með undirskrift sinni að koma í veg fyrir að frumvarpið yrði að lögum. Engu að síður var það algjörlega hans ákvörðun og túlkun. Hvergi er kveðið á um þessa gjá í stjórnarskránni eða hefðbundum íslenskum lögum. Hin svokallaða gjá milli þings og þjóðar var bara lýsing á raunveruleikaskynjun þessa eina manns, sem varð svo til þess að eitt afdrifaríkasta lagafrumvarp lýðveldissögunnar varð ekki að veruleika. Og hann hafði rétt fyrir sér hvað þessa gjá varðar. Málið er bara að þessi gjá er alveg jafnbreið núna og hún var þá. Traust til stjórnmála á Íslandi er ekkert.

Hver forseti mótar embættið eftir eigin höfði, segir í grein Guðna. Og með því að móta embættið eftir eigin höfði mótar hann líka stjórnskipun Íslands í heild sinni eftir sínu eigin höfði.

Köttur Schrödingers á Bessastöðum

Ég tek fram að ég er hér ekki að taka neina afstöðu til þess hvert raunverulegt hlutverk forseta Íslands á að vera. Þetta er bara lýsing á hinu fljótandi ástandi sem ríkir í íslenskri stjórnskipan. Það ríkir algjör óvissa um það hvernig íslensk stjórnskipan er nákvæmlega vegna þess að það ríkir algjör óvissa um það hvert hlutverk forseta Íslands er eiginlega. Hann mótar bara embættið eftir eigin höfði. Vald hans er eins og eitthvert fyrirbæri úr skammtafræði, bæði raunverulegt og ekki, í senn táknrænt og ekki táknrænt, og eins og köttur Schrödingers er bæði dauður og lifandi alveg þangað til einhver gáir, þá er forsetinn bæði valdalaus og valdamestur alveg þangað til einhver gáir, í þessu tilviki hann sjálfur. 

Ég rifja þetta upp hér vegna þess að um þessar mundir er tekist á um mikilvægi nýrrar stjórnarskrár. Árið 2012 var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Þetta var svokölluð ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Þingið leitaði þar eftir ráðgjöf þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá en gleymdi að láta hana vita að hugmyndin væri sú að ráðgjöfin væri negatíf – það ætti einmitt að gera hið andstæða við ráðgjöfina. Þjóðaratkvæðagreiðslan var einstök á heimsvísu að því leyti að tilgangurinn með henni var að komast að því hvað þjóðin vildi en gera síðan hið gagnstæða. Ef þjóðin lýsti því yfir í ráðgjöf sinni að hún vildi nýja stjórnarskrá byggða á tillögum sem voru til staðar, þá yrði það einmitt ekki gert. Síðan þá hefur lítið sem ekkert spurst til þessarar stjórnarskrár en nú er krafan um hana að verða háværari, sem og þá vitaskuld andstaðan við hana. 

Mín persónulega skoðun er sú að það skipti engu sérstöku máli hvað þér eða mér finnst eða finnst ekki um nýju stjórnarskrána. Það var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hana og það á að virða niðurstöður slíkra atkvæðagreiðslna. Annars er einfaldlega verið að setja stórhættulegt fordæmi og vega að grunnstoðum lýðræðis í landinu, í raun taka það effektíft úr sambandi. Það skiptir ekki heldur máli þótt kosningaþáttakan sé dræmari í einni kosningu en annarri. Ef þingið spyr þjóðina um vilja hennar, þá er almenningi fullkomlega frjálst að tjá hug sinn með kosningu eða ekki. Ef þú hefur enga sérstaka skoðun á íslensku stjórnarskránni og tekur enga sérstaka afstöðu til þess hvort það eigi að breyta henni eða ekki, þá er þér fullkomlega frjálst að mæta ekki á kjörstað. En það þýðir ekki að þingið geti af þeim sökum hunsað vilja meirihluta þeirra sem tjáðu sig. 

Af hverju að kjósa í næstu þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ég fjalla hér um stjórnskipulegu þokuna sem ríkir yfir forsetaembættinu og þar með íslenskri stjórnskipan í heild sinni og síðan stjórnarskrána sem hvarf vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af stöðu lýðræðis á Íslandi og framtíð þess. Þér er auðvitað frjálst að líta svo á að það séu algjörlega óþarfar áhyggjur eða að ég sé vænisjúkur anarkisti sem líti á allt sem valdabaráttu og hagsmunatafl. 

En eins og ítrekað hefur verið komið inn á í þessum klefa Lestarinnar síðustu ár, þá er traust til stjórnmála fíllinn í stofunni á Íslandi og hefur verið allar götur frá efnahagshruni. Yfirgnæfandi meirilhuti almennings lýsir því yfir í skoðanakönnunum ár eftir ár að hann treysti því ekki að valdhafar vinni í þágu þjóðarinnar. Gjáin er hérna ennþá. Þetta er grafalvarlegt óvissuástand sem getur leitt til þess að samfélagssáttmálinn rofnar á endanum. Að vanvirða þjóðaratkvæðagreiðslur er svakalegt fordæmi að setja. Aftur, það skiptir ekki öllu máli hvort þær eru kallaðar ráðgefandi eða kosningaþáttakan í þeim sé ekkert æðisleg og svo framvegis. Ef þú ferð ekki eftir því þá lætur þú stórum hluta þjóðarinnar líða eins og hann hafi verið svikinn og að leikreglur lýðræðisins séu ekki í gildi. Hvað myndir þú hugsa ef ríkisstjórnin segði á morgun að hún ætlaði að halda ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert mál? Myndirðu taka þátt? Þætti þér líklegt að farið yrði raunverulega eftir henni ef niðurstaðan yrði óþægileg fyrir fólkið sem fer með völdin bæði fyrir framan og bakvið tjöldin í samfélaginu? 

Ég er síðan að sjálfsögðu alveg fullkomlega sammála því að það er ekkert sem bendir til annars en að Guðni Th. Jóhannesson sinni embætti sínu með mikum sóma og þokka, en það býður hættunni heim til lengri tíma að hlutverk og völd embættisins séu svona óskýr og að hver forseti móti embættið og völd þess eftir sínu eigin höfði. Því hver mun koma á eftir Guðna? Hvernig verður pólitíska ástandið í heiminum þá? Hversu breið verður gjáin í samfélaginu á þeim tíma? Ef við viljum að forsetinn sé pólitískt afl, sem liggur í dvala en getur beitt þingið neitunarvaldi á ögurstundu – sem vel má vera að sé gagnlegt – er þá ekki gáfulegt að setja einhverjar reglur um það?

Hvert er valdamesta embættið á Íslandi? Hvaða hlutverk hafa þjóðaratkvæðagreiðslur? Óstöðugleikinn í heiminum á bara eftir að aukast á næstu árum. Hversu mikilvægt er þá að  leikreglur lýðræðisins séu skýrar? Eða ætlarðu kannski bara að yppa öxlum og segja: Dóri minn, þetta reddast!

Tengdar fréttir

Pistlar

Við öðlumst visku gegn vilja okkar

Pistlar

Sjálfbær blaðamaður úti á túni

Pistlar

Varnarræða fyrir melankólíuna

Pistlar

Að þrá úr fjarlægð