Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þúsundir mótmæla spillingu í Búlgaríu

04.10.2020 - 03:08
epa08718799 People light up with their cell phones during an anti-government protest held in front of the Parliament building in Sofia, Bulgaria, 03 October 2020. Hundreds of demonstrators once again gathered in the capital's downtown area to demand the resignation of Prime Minister Boyko Borissov and his government.  EPA-EFE/VASSIL DONEV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir Búlgara gengu fylktu liði um götur höfuðborgarinnar Sofiu á laugardag til að mótmæla spillingu og krefjast afsagnar forsætisráðherrans Boykos Borisovs og ríkisstjórnar hans. Mótmælendur söfnuðust að lokum saman framan við þinghúsið, þar sem kyrjuð voru slagorð á borð við „Afsögn strax!" og „Mafía!"

 

Fjöldamótmæli og kröfugöngur af þessu tagi hafa farið fram í Sofiu og fleiri stærri borgum Búlgaríu hvern laugardag síðustu þrjá mánuði. „Evrópa hefur heyrt okkur og séð!" sagði einn af skipuleggjendum mótmælanna, lögfræðingurinn Nikolaí Hadjiguenov, þegar hann ávarpaði mannfjöldann í dag. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýsti á miðvikudag áhyggjum af sjálfstæði búlgarskra dómstóla,  ógnum sem steðja að frelsi fjölmiðla í landinu og takmörkuðum árangri yfirvalda í boðaðri baráttu gegn spillingu.

Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að um eða yfir 60 prósent landsmanna styðji kröfur mótmælenda. Forsætisráðherran Borisov, sem verið hefur við völd í næstum 10 ár, þvertekur þó fyrir að segja af sér eða rjúfa þing áður en kjörtímabilinu lýkur í mars á næsta ári. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV