Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skilur ekki af hverju sömu aðgerðir ná yfir allt landið

04.10.2020 - 12:22
Mynd: Samsett / Samsett
Hertar sóttvarnaaðgerðir sem taka gildi á miðnætti ná yfir allt landið. Tryggvi Kristjánsson, framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvarinnar Bjargs á Akureyri, er ósáttur við það og segir Norður- og Austurland gjalda fyrir þann fjölda smita sem hefur greinst á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.

„Það finnst mér. Þar sem smitin eru ekki tiltölulega mörg hérna í þessum landshlutum. Það er ekki margt sem er í boði, eðlilega, út af sóttvörnum og þessari veiru, og þá er líkamsræktin orðin enn þá veigameiri og stærri þáttur hjá okkur. Það er í raun og veru bara grunnþjónusta og ég á pínu erfitt með að skilja af hverju þetta þarf að ganga eins yfir allt landið,“ segir Tryggvi í samtali við fréttastofu.

Hann skrifaði pistil um málið á Facebook í gær þar sem hann sagðist vera bæði reiður og sár. Landsbyggðin fengi að gjalda fyrir slóðaskap sem hópur fólks fyrir sunnan hefur sýnt með því að hlýða ekki fyrirmælum, eins og hann orðaði það í pistlinum. 

Tryggvi segist vilja sjá hertar aðgerðir eftir landshlutum.

„Já, ég hefði viljað sjá þetta landshlutaskipt. Ísland er náttúrulega þannig að búsetulega séð þá er það nokkuð þægilegt um vik, held ég, að skipta eftir landshlutum. Til dæmis eins og hér á Akureyri, eða förum lengra og tökum Dalvík eða Húsavík þar sem engin smit eru. Þar á að loka líkamsræktarstarfsemi. Ég skil ekki alveg af hverju,“ segir Tryggvi Kristjánsson.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot