Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skemmdir unnar á umdeildum Jesú-merktum strætó

04.10.2020 - 22:06
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd:Strætó
Það var ekki góð aðkoma sem blasti við vagnstjóra Strætó þegar hann kom til vinnu í morgun. Við honum blasti skemmdarverk á vagni sem merktur er auglýsingu frá Þjóðkirkjunni, þar sem Jesú er sýndur með brjóst í kjól og með varalit. Var búið að skrapa filmuna af vagninum þar sem Jesú var sýndur.

Myndin og auglýsingaherferð kirkjunnar var mikið til umfjöllunar í síðasta mánuði. Átti hún að fagna fjölbreytileikanum, en að lokum baðst kirkjuþing Þjóðkirkjunnar afsökunar á myndinni og tók hana úr birtingu á miðlum sínum. 

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir í samtali við fréttastofu að einbeittur brotavilji virðist vera að baki skemmdarverkunum.

„Já það bendir allt til þess. Þetta er umdeild mynd en það er ekkert sem réttlætir svona skemmdarverk. Planið er vaktað og við munum láta skoða myndbandsupptökur frá því aðfaranótt sunnudags,“ segir Guðmundur Heiðar.

Skemmdarverkin koma þó ekki í veg fyrir að Jesú-merktur strætó aki um götur borgarinnar á næstunni.

„Kirkjan keypti 8 vikna birtingu og við munum láta laga filmuna á morgun,“ segir Guðmundur Heiðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mynd:Strætó
Aðeins voru unnar skemmdir á Jesú sjálfum.