Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segja annan Íslending hafa myrt Jón Þröst á Írlandi

04.10.2020 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Írski fjölmiðillinn Sunday Independent greinir frá því í dag að Jóni Þresti Jónssyni, sem ekkert hefur spurst til síðan hann hvarf sporlaust í Dyflinni á Írlandi í febrúar í fyrra, hafi verið ráðinn bani af öðrum Íslendingi fyrir slysni, eftir ósætti í fjárhættuspili. 

Jón dvaldi á hóteli í Dyflinni með unnustu sinni og ætluðu þau að spila þar póker og fara í skoðunarferðir. Í eftirlitsmyndavél sást hann ganga út af hótelinu um klukkan 11:00 laugardaginn 9. febrúar í fyrra. Írsku lögreglunni bárust nokkrar ábendingar frá fólki sem taldi sig hafa séð Jón en ekki fannst neitt sem renndi stoðum undir að þær frásagnir ættu við rök að styðjast.

Í umfjöllun Sunday Independent í dag segir að einstaklingur sem afpláni nú dóm í fangelsi hér á landi hafi verið milliliður í því að þessar nýju vísbendingar komu fram. Jón Þröstur hafi tekið þátt í ólöglegu pókermóti kvöldið áður en hann hvarf og tapað þar peningum sem voru í eigu annars Íslendings. Sá á að hafa myrt Jón í reiði vegna peninganna sem töpuðust. Vísir greindi fyrst frá af íslenskum miðlum.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í skriflegu svari til fréttastofu að ábendingar hafi borist sem hafi verið skoðaðar og viðraðar við írsk yfirvöld sem stýra rannsókn málsins. Hann  gat ekki gefið frekari upplýsingar á þessum tímapunkti. 

Lögreglan á Írlandi sagði á sínum tíma að þetta væri með undarlegri mannshvörfum sem hafa orðið í Dyflinni. Jón Þröstur var hvorki með síma né veski á sér og því ekki hægt að styðjast við símagögn eða kortanotkun. Lögreglan sagði snemma að ekkert benti til þess að nokkuð saknæmt hefði átt sér stað.

Uppfært klukkan 14.40.

Þórunn Jónsdóttir, systir Jóns Þrastar, birtir opna færslu á Facebook í dag þar sem hún segir að tengiliðir fjölskyldunnar hjá lögregluyfirvöldum á Íslandi og Írlandi kannist ekki við upplýsingarnar sem koma fram í frétt Independent. Þá segir hún fjölskylduna ekki hafa fengið veður af þessum upplýsingum sem fjallað er um í frétt írska miðilsins.