Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

RARIK uppfærir kerfið og kemur 250 km af línum í jörð

04.10.2020 - 20:25
Mynd: Grafík - RÚV / Grafík - RÚV
RARIK reiknar með að koma um 250 kílómetrum af raflínum í jörð áður en vetur gengur í garð. Þar af eru rúmlega hundrað kílómetrar á Norðurlandi. Stór hluti verkefna er til kominn vegna óveðursins sem reið yfir landið í desember í fyrra.

„Það er náttúrlega í Vatnsnesinu sitt hvoru megin. Það var smá bútur hérna á Húsabakka í Skagafirði, það er Svarfaðardalur. Hörgárdalur, báðu megin. Við erum að vinna hérna í Svalbarðsströndinni. Og svo Tjörnesið náttúrlega sem fór mjög illa, það er allt komið. Og þarna á Melrakkasléttunni,“ segir Steingrímur Jónsson, deildarstjóri hjá RARIK á Norðurlandi.

RARIK rekur stærsta dreifikerfi raforku á Íslandi og er háspennuhluti þess yfir 9.000 kílómetrar að lengd. Í um 30 ár hefur loftlínum verið fækkað markvisst, bæði til þess að auka rekstraröryggi og draga úr sjónmengun en stefnt er að því að allt kerfið verði komið í jörðu árið 2035. 

Betur í stakk búin ef annað eins óveður verður

Í óveðrinu sem gekk yfir landið í desember í fyrra fóru línur á Norðurlandi víða illa. 150 rafmagnsstaurar brotnuðu auk þess sem á  þriðja tug lína slitnaði. Því var mikil áhersla lögð á uppbyggingu kerfisins á því svæði.

„Þetta náttúrulega þýðir það að ef það verður eitthvað svipað eins og var í fyrra þá verðum við miklu betur í stakk búin til þess að takast á við það,“ segir Steingrímur.

Allt stefnir í að um 250 kílómetrar af þriggja fasa jarðstrengjum verði lagðir þetta árið. Stærstur hluti þeirra er á Norðurlandi. 84 kílómetrar voru lagðir vegna sérstaks átaks vegna afleiðinga óveðursins. Af þeim er 21 kílómetri á Melrakkasléttu, 11 í Grenivíkurlínu, 18 kílómetrar í Hörgárdal, 11 í Svarfaðardal. 19 í Vesturhópi og 4 kílómetrar hjá Húsabakka í Skagafirði. Þá voru lagðir 44 kílómetrar samkvæmt áður samþykktri áætlun, 15 á Vatnsnesi, 8 í Skagafirði og 21 á vestanverðu Tjörnesi. Kostnaður er áætlaður um 1,6 milljarðar króna. Af þeim eru um 600 milljónir vegna verkefna sem var flýtt.

Kerfið ykkar er þá betur í stakk búið til að takast á við svipaðar aðstæður og sköpuðust í desember 2019?

„Alveg klárlega,“ segir Steingrímur.