Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil fjölgun á barnaníðsmálum á Íslandi

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Barnaníðsmálum sem koma inn á borð lögreglu hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Tvisvar sinnum fleiri mál komu upp í fyrra en árið á undan. Lögreglan hyggst ráðast í frumkvæðisvinnu í slíkum málum. Ekki er lagaheimild fyrir því að fylgjast með þeim sem gerst hafa sekir um að sækja efni sem sýnir barnaníð.

Fyrr á þessu ári handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þrjá menn og lagði um leið hald á hundruð þúsunda mynda sem sýna barnaníð.

„Þetta var ábending sem kom frá dönsku lögreglunni um að það væru sjö „hit“ eins og það er kallað. Og fimm af þessum „hit-um“ urðu að raunverulegum rannsóknum. Og út frá því voru þrír handteknir,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Tvö af málunum þremur eru nú komin til ákæruvaldsins.

Hundruð milljóna deilinga

Barnaníðsmálum fjölgaði mikið hér á landi í fyrra, miðað við árin á undan. 22 slík mál komu upp í fyrra, tvisvar sinnum fleiri en árið áður og fleiri en öll árin þar á undan.

„Í fljótu bragði get ég ekki skýrt það sérstaklega nema að það fannst meira og það komu sennilega fleiri ábendingar,“ segir Ævar Pálmi.

Getur það bent til þess að þetta sé eitthvað að færast í aukana?

„Þetta hefur verið að færast í aukana undanfarin ár. Ég man ekki töluna nákvæmlega en ef ég man rétt, þá töluðu NCMEC-samtökin í Bandaríkjunum árið 2002 um einhverjar þúsundir deilinga á svona efni. 2018 skipti það einhverjum fleiri hundruð milljónum deilinga.“

Hefur lögreglan á Íslandi nægan mannafla og næga tækni til þess að rannsaka svona mál almennilega?

„Ég held að lögreglan þurfi mannafla hvar sem stigið er niður. Það væri ágætt að hafa meiri mannafla, en við forgangsröðum og gerum okkar besta.“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Ævar Pálma.

Ævar Pálmi segir að lögreglan vinni ekki frumkvæðisvinnu í svona málum hér á landi, hún reyni ekki að finna menn sem sækjast eftir barnaníði og deili því á netinu. Slík mál komi fyrst og fremst upp eftir ábendingar erlendis frá eða þegar hald er lagt á tölvur í tengslum við önnur mál.

„Já, að mestu leyti kemur þetta upp eftir ábendingar, það er að segja rannsóknir hér á landi. Lögreglulið erlendis eru í mikilli frumkvæðisvinnu og við fáum oft ábendingar þaðan. Og svo þegar við erum í öðrum rannsóknum vegna kynferðisbrota og leggjum hald á búnað. Svo er framkvæmd leit í þessum búnaði og þá finnst stundum svona efni.“

En þyrfti lögreglan á Íslandi að ráðast í frumkvæðisvinnu í svona málum?

„Já og nei. Kannski getum við notað þessar ábendingar sem koma erlendis frá. Það er mikil frumkvæðisvinna í gangi þar. Og netið er auðvitað alþjóðlegt. En auðvitað ættum við að leggja meiri hönd á plóg. Við myndum þá finna mál sem við myndum koma á framfæri við kollega okkar erlendis.“

Stendur til að fara í svona frumkvæðisvinnu?

„Já, mér skilst það.“

Eðlileg umræða

Á undanförnum árum hafa fáir dómar fallið í barnaníðsmálum. Á sama tíma hefur rannsókn verið hætt í nokkuð mörgum málum, fleiri málum en dómur hefur fallið í.

„Gögnin hafa ekki verið nægjanleg eða eitthvað þess háttar, og ekki tekist að afla þeirra gagna sem þarf til að ákæruvaldið telji málið líklegt til sakfellis,“ segir Ævar Pálmi.

Eftir að menn eru teknir með barnaníðsefni hefur lögreglan ekki heimild til að fylgjast með þeim til þess að kanna hvort þeir gerist uppvísir að því að nýju. En þyrfti slík lagaheimild að vera til staðar?

„Það mætti alla vega skoða það. Ég ætla ekki að segja til um það hér og nú hvort sú lagaheimild þyrfti að vera til staðar en mér þætti ekkert óeðlilegt ef það væri rætt.“

Getur lögreglan skoðað vefi á borð við „dark web“ og „deep web“ þar sem mikið af þessu efni er að finna, og kannað hvort íslenskar IP-tölur tengjast þeim?

„Það fer eftir hverju máli fyrir sig. En við getum að sjálfsögðu skoðað „dark web“ og „deep web“. En þetta er gríðarlega flókið og getur verið mjög umfangsmikið og það fer eftir hverju máli fyrir sig, hvað við komumst langt. En brotamenn sem eru að deila eða hlaða niður barnaníðsefni, þeir gera að sjálfsögðu allt sem þeir geta til þess að fela slóð sína eins og hver annar brotamaður.“

Getur þú útskýrt hvað „dark web“ og „deep web“ er?

„Ég get ekki útskýrt það í stuttu máli, nema kannski eins og það var einu sinni útskýrt fyrir mér, að á þessum yfirborðsvef þar sem við erum, það er svona rétt yfirborðið á haffletinum. En svo er „dark web“ allt draslið þarna niðri. En það má heldur ekki gleyma því að mikið af deilingum á barnaníðsefni fer líka fram á yfirborðsvefnum. Það er að segja á þessum venjulega vef og þar af leiðandi á vefsíðum sem við komumst öll inn á.“

En það er ekki hverjum sem er gefið að komast inn á þennan undirvef, eða hvað?

„Já og nei, jú jú. Ef þú leggur þig aðeins fram þá kemstu alveg þangað inn.“

Alvarlegra að borga

Er munur á því hvort menn kaupa svona efni, eða sækja það án þess að greiða fyrir það? Er það kannað sérstaklega?

„Já, við könnum það sérstaklega vegna þess að ef þú greiðir fyrir það með peningum, þá ertu að kaupa svokallað „live stream“ efni. Það er að segja, þá ertu að panta þér sýningu. En svo ganga þessi myndbönd og þetta efni í skiptum, menn eru þá að skiptast á efni og þess háttar.“

Er það alvarlegra brot að kaupa efnið?

„Það getur verið alvarlegra brot ef þú pantar ákveðna sýningu og greiðir fyrir það, þá gæti brotamaður gerst sekur um nauðgun.“

Svona heilt yfir, heldurðu að þessi háttsemi sé algengari en menn almennt halda?

„Ég held að hún sé algengari en fólk vilji halda. Það hefur verið okkar tilfinning þegar þessi mál ber á góma að fólk vilji helst ekki heyra mikið um þetta,“ segir Ævar Pálmi.