Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leggja 300 milljónir í Keili og Menntanet Suðurnesja

04.10.2020 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins, segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja 300 milljónir króna í rekstur Keilis og menntanets á Suðurnesjum. Einnig standi til að stækka Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir ríkisstjórnina hafa vanrækt Suðurnesin í rúmlega ár.

 

Rætt var við þau í Silfrinu í dag. Þorgerður segir að eyða verði óvissu í fjármögnun skólanna á Suðurnesjum, heilbrigðisstofnana og opinbera kerfisins auk þess sem setja þurfi hvata inn á svæðið.

„2006 fer herinn, síðan kemur hrunið, það er WOW Air og síðan þessi mikla kreppa núna búin að bitna harðast á Suðurnesjunum. Ég ætlast til þess að ríkisstjórnin, af því að samtalið er lítið og við fáum engarupplýsingar, að hún sé að vinna þarna heimavinnuna sína og koma með ákveðin skilaboð til Suðurnesjanna,“ sagði Þorgerður Katrín í Silfrinu í dag. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, segir að settar hafi verið 250 milljónir króna í allskyns verkefni á Suðurnesjum í vor sem hafi gagnast vel. Ríkisstjórnin hafi fyrir nokkrum dögum samþykkt fjármögnun Keilis til lengri tíma og Menntanets allra menntastofnana á Suðurnesjum. Menntanetinu er ætlað að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Sigurður Ingi segir að landshlutinn sé sérstakur að því leytinu til að þar er hátt hlutfall ófaglærðra. 

„Þannig að það eru um 300 milljónir sem munu fara inn í Keili og Menntanetið til þess að taka sérstaklega utan um þennan hóp sem þarf öðruvísi menntun til þess einmitt að takast á við framtíðina og í leiðinni að styrkja bæði Fisktækniskólann og Fjölbrautaskólann. Það eru í fjárlögunum tillögur um að byggja og stækka Heilbrigðisstofnunina þannig að allt sem Þorgerður sagði að þyrfti að gera erum við búin að vera að undirbúa og erum að koma með í framkvæmd,“ segir Sigurður Ingi. 

„Við erum bara búin að heyra þetta svo oft, en svo gerist ekkert,“ skaut Þorgerður Katrín þá inn í. Sigurður Ingi ítrekaði þá að þetta yrði að veruleika. „Það gerist. Fylgjumst bara með núna.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV