Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hóta mótmælendum nauðgunum og sviptingu forræðis barna

04.10.2020 - 06:53
epa08698816 Belarusian policemen detain a participant of women's peaceful solidarity action in Minsk, Belarus, 26 September 2020. Opposition activists continue their every day protest actions, demanding new elections under international observation.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregluofbeldi og handtökur hafa færst í aukana í Hvíta-Rússlandi síðustu vikur, samkvæmt Human Rights Watch, Mannréttindavaktinni. Ofbeldið hefur tekið á sig ýmsar myndir, samkvæmt frásögnum þolenda; það er líkamlegt, andlegt og kynferðislegt. Stjórnvöld beita konur sérstökum kúgunaraðferðum og hóta þeim því að ef þær hætti ekki mótmælum og stjórnmálaþátttöku verði börnin þeirra tekin af þeim.

Það var ljóst löngu fyrir forsetakosningar í Hvíta-Rússlandi 9. ágúst að þær yrðu ekki lýðræðislegar. Sigurstranglegustu mótframbjóðendur Alexanders Lukasjenko, forseta, voru fangelsaðir eða neyddust til að flýja land.

Nóttina eftir að stjórnvöld tilkynntu að Lukasjenko, sem stundum er kallaður síðasti einræðisherra Evrópu, hafi fengið yfir áttatíu prósent atkvæða, flykktust þúsundir út á götur til að mótmæla í Minsk og víðar um landið því fólk trúði því ekki að þetta væru réttar niðurstöður kosninganna. Lengi lifi Hvíta-Rússland hrópaði fólk að lögreglumönnum sem mynduðu þéttar raðir, gráir fyrir járunum. Mótmælin fyrsta kvöldið voru þau kröftugustu síðan landið fékk sjálftæði eftir hrun Sovétríkjanna snemma á tíunda áratugnum.

Handtóku 7.000 manns á fjórum dögum

Lögregla tók strax hart á mótmælendum, hvort sem þeir voru að mótmæla á friðsaman hátt eða ekki; barði þá með kylfum, beitti táragasi og gúmmíkúlum. Næstu daga voru þúsundir mótmælenda handteknir. Tanya Lokshina er aðstoðarframkvæmdastjóri Human Rights Watch, Mannréttindavaktarinnar, í Evrópu og Mið-Asíu. Skrifstofan hennar er í Moskvu og hún hefur farið tvisvar sinnum til Hvíta-Rússlands síðustu vikur. Hún var þar kosningahelgina í byrjun ágúst og fylgdist með mótmælunum. Hún fór aftur þangað í lok ágúst og tók viðtöl við fólk sem hafði verið beitt ofbeldi af hálfu lögreglu. Hún ræddi líka við heilbrigðisstarfsfólk og mannréttindalögfræðinga. Lokshina segir að því miður séu það ekki nýjar fréttir að yfirvöld í Hvíta-Rússlandi beiti friðsama mótmælendur ofbeldi. Það viti hún því hún hafi vaktað þau mál síðustu ár. 

epa08702026 Protesters march during a rally to protest against the presidential election results, as policemen guards a monument in Minsk, Belarus, 27 September 2020. Opposition activists continue their every day protest actions, demanding new elections under international observation.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA

„Þessi fjöldi mótmælenda og þetta víðtæka ofbeldi sem við urðum vitni að í Hvíta-Rússlandi í ágúst, það er án fordæma. Sama má segja um aðferðir lögreglu við að kveða mótmælin niður; gúmmíkúlur, hvellsprengjur, háþrýstidælur og táragas,“ segir Lokshina í samtali við Heimskviður.

Mótmælin hafa haldið áfram og eru alltaf fjölmennust um helgar. Á laugardögum eru haldnar kvennagöngur og á sunnudögum eru mótmæli um allt landið. Talið er að í Minsk komi yfir hundrað þúsund manns saman til að mótmæla á sunnudögum. Lokshina bendir á að hátt í sjö þúsund manns voru handtekin á aðeins fjórum dögum í byrjun mótmælanna. Hundruð voru pyntuð eða beitt ofbeldi af hálfu lögreglu, bæði karlar og konur. Lokshina segir að markmiðið hjá yfirvöldum hafi verið að hræða fólk; að fá það til að hætta mótmælunum og sætta sig við að Lukasjenko yrði forseti áfram. Hið gagnstæða hafi þó gerst. Lokshina segir að í stað þess að hætta mótmælum og halda sig heima, hafi fólk haldið áfram að koma saman á götum úti og mótmæla. Mótmælendum fjölgaði og nú voru þeir ekki aðeins að mótmæla kosningasvindli, heldur líka því grimmilega ofbeldi sem lögregla beitti fólk.

epa08702181 Protesters shout slogans, as they march during a rally to protest against the presidential election results in Minsk, Belarus, 27 September 2020. Opposition activists continue their every day protest actions, demanding new elections under international observation.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA

„Þegar fólk áttaði sig á því hvernig komið var fram við mótmælendur, fór reiðialda yfir hvítrússneskt samfélag. Fólk heyrði af ofbeldi, raflostum, hótunum um nauðganir og aðrar skelfilegar misþyrmingar og því urðu mótmælin svo kröftug,“ segir Lokshina, sem ásamt samstarfsfólki sínu hjá Mannréttindavaktinni hefur rannsakað ofbeldið sérstaklega. Fjölmargar frásagnir eru af fólki sem var að mótmæla eða einfaldlega bara á gangi úti og hefur verið gripið harkalega af lögreglu og neytt inn í stóra lögreglubíla.

Segja fólki troðið inn í lögreglubíla og fangaklefa

Fólkið sem Lokshina ræddi við var dregið inn í lögreglubíla, barið og bókstaflega staflað hverju ofan á annað. Það er sparkað í fólk, það kýlt og látið hafast við í lögreglubílum klukkutímum saman í loftlitlu rými þar sem erfitt er að ná andanum. Svo er ekið með fólk í fangelsi. Þar tekur ekki betra við og ofbeldið heldur áfram, segir hún. Í fangelsunum er litla sem enga næringu að fá, fólk neyðist til að gera þarfir sínar inni í klefanum, og aðeins örfáum stendur til að boða heilbrigðisþjónusta eftir barsmíðarnar. Tugum er troðið inn í klefa sem ætlaðir eru fjórum til sex manneskjum. Lokshina tók viðtöl við fólk sem hafði verið haldið í fangaklefa með fjórum rúmum, með þrjátíu til fjörutíu öðrum manneskjum. 

Mynd með færslu
Tanya Lokshina, aðstoðarframkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar í Evrópu og Mið-Asíu. Mynd: Zoom - Skjáskot

18 ára nefbrotinn af lögreglu

Einn þeirra fjölmörgu sem hafa verið handtekin er Alexander Brukhanchik, átján ára menntaskólanemi. Hann sagði Mannréttindavaktinni sögu sína. Hann var úti með tveimur vinum sínum að kvöldi til 11. ágúst í Minsk, þegar lögreglan stoppaði þá og krafðist þess að fá að kíkja í bakpokana þeirra. Þeir voru svo neyddir inn í lögreglubíl þar sem sparkað var ítrekað í þá, buxurnar þeirra voru skornar í sundur yfir rassinn og þeim var hótað að handsprengju yrði troðið upp í endaþarminn. Alexander var með axlarsítt hár og einn lögreglumannanna klippti hárið og sagði að nú væri hann tilbúinn til að ganga í herinn. Vinirnir þrír voru svo færðir í annan lögreglubíl sem var stappfullur af fólki og gólfið þakið blóði eftir barsmíðar. Lögreglumaður sparkaði fast í andlit Alexanders sem nefbrotnaði við höggið.

Vinirnir þrír voru fluttir í fangelsi þar sem ofbeldið hélt áfram; þeim var gefið raflost og hótað að þeim yrði nauðgað með lögreglukylfu. Þeim var sleppt tveimur dögum síðar og þá gátu þeir loks leitað til læknis. 

epa08701397 Belarusian policemen detain a protester during a rally to protest against the presidential election results in Minsk, Belarus, 27 September 2020. According to reports, Thousands of Opposition activists gather for another protests against president Lukashenko and to demand new elections under international observation.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Einn hefur greint frá nauðgun

Fjöldi karlmanna hefur greint frá því að hafa verið hótað nauðgun. Vitað er um eitt tilvik þar sem lögregla lét verða af hótunum sínum og hefur verið fjallað um málið í skýrslum mannréttindasamtaka og í fjölmiðlum. Í frásögnunum kallar þolandinn sig Ales því hann vill ekki kom fram undir nafni.

Hann var að hjóla heim úr vinnu seinni part dags 11. ágúst og sá að mótmælendur voru byrjaðir að safnast saman en hann ætlaði ekki að taka þátt, heldur fara heim. Þá komu tveir óeirðalögreglumenn að honum og kröfðust þess að hann myndi leyfa þeim að opna símann sinn. Þegar hann neitaði var hann færður inn í lögreglubíl. Þar lágu fyrir tveir menn á grúfu. Lögreglan bað aftur um að fá að sjá síma Ales. Hann ákvað að láta undan og sýndi þeim símann í von um að hann yrði látinn laus. Í símanum sáu lögreglumennirnir myndband frá mótmælum deginum áður. Á því mátti sjá lögreglumenn í átökum við mótmælendur. Eftir að þeir sáu myndbandið börðu þeir hann með kylfum víðs vegar um líkamann. Þeir öskuðu á hann að hann hefði skipulagt mótmælin og að hann myndi ekki sleppa frá þeim á lífi. 

Fleira fólk var neytt inn í bílinn og Ales vonaði að það versta væri yfirstaðið. Svo var ekki. Hann var aftur beðinn um að opna símann en neitaði því hann óttaðist að þar sæju lögreglumenn vini hans og myndu handtaka þá.

Lögreglan kallaði þá til einhvern sem Ales telur að sé yfirmaður í lögreglunni. Hann var með svarta grímu fyrir andlitinu eins og aðrir lögreglumenn í mótmælunum. Hann hótaði Ales því að ef hann myndi ekki opna símann myndi hann stinga lögreglukylfunni sinni upp í endaþarminn á honum. Hann skar buxur og nærbuxur Alex í sundur að aftan, setti smokk yfir kylfuna og lét verða af hótunum sínum. Þegar hann dró kylfuna út krafðist hann þess á ný að fá aðgangsorðið að símanum. Ales neitaði og var þá barinn með þeim afleiðingum að tvær framtennur brotnuðu. Eftir þetta neyddi lögreglumaðurinn Ales til að fjarlægja smokkinn af kylfunni.
 
Hann var fluttur í fangelsi ásamt hinum í bílnum. Fyrir utan stóðu lögreglumenn í tveimur röðum og þurfti fólkið að hlaupa þar í gegn á meðan lögreglumennirnir létu höggin dynja á þeim. Ales bað ítrekað um að fá að fara til læknis. Hann segir að klefinn hafi verið um 25 fermetrar og að þar hafi verið 119 manns. Hann segir að þetta hafi verið eins og í síldartunnu. Um einum og hálfum sólarhrig síðar komst hann loks undir læknishendur. Hann hefur kært ofbeldið til lögreglu. Aðstoðarinnanríkisráðherra landsins hefur brugðist við skýrslu Mannréttindavaktarinnar um málið og neitar því alfarið að þetta hafi gerst. 

epa08708214 Belarus students protest near the entrance of their university to show their solidarity with previously detained students in Minsk, Belarus, 30 September 2020.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Skipað að fara úr fötunum og barin 

Fjöldi kvenna hefur einnig greint frá hótunum lögreglu um nauðganir. Einnig hafa margar greint frá áreitni, eins og vera snertar á kynferðislegan hátt. Ein þeirra er Alexandra sem sagði fjölmiðlinum RadioFreeEurope sögu sína. Hún var handtekin og þegar í fangelsi var komið var henni var skipað að fara úr fötunum, standa með fætur í sundur og með hendur fyrir aftan bak. Eftir það var hún barin. Lögreglumaður tók símann hennar og skoðaði myndir og samfélagsmiðla. Þegar hann sá að hún var væri í spjallhópi mótmælenda sagði hann: „Þú veist hvað við gerum við þig. Við nauðgum þér,“ samkvæmt frásögn Alexöndru. 

Lögreglumennirnir hótuðu að drepa hana og grafa líkið í skóginum. Á leið í annað fangelsi stoppuðu þeir við skóg og sögðu að nú væri komið að því.

Það hefur löngum verið þekkt að nauðganir séu notaðar sem vopn í stríði. Slíkt var gert í stríðunum í Rúanda og Bosníu. Lokshina segir að enn sem komið er sé ekki hægt að líta svo á að nauðgunum sé beitt á kerfisbundinn hátt í Hvíta-Rússlandi. Enn sem komið er viti Mannréttindavaktin af einu máli. 

Öðru máli gildir um hótanir um nauðganir, segir hún. Fólki sé ítrekað hótað og lögregla skeri föt utan af því til að sýna að henni sé alvara. „Já, það virðist vera nokkuð algengt að fólki sé hótað kynferðisofbeldi,“ segir hún.

Hóta konum sem mótmæla og eru í stjórnmálum 

Svetlana Tikanovskaya er óumdeildur leiðtogi stjórnarandstæðinga í Hvíta-Rússlandi. Hún ákvað að bjóða sig fram gegn Lukasjenko eftir að eiginmaður hennar, sem ætlaði að bjóða sig fram, var fangelsaður. Í kosningabaráttunni sendi hún börn sín úr landi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Serge Serebro - Vitebsk

Í viðtali við New York Times, sagði Tikanovskaya frá því að hafa fengið símtal, hún viti ekki frá hverjum það var, þar sem henni var hótað að ef hún myndi halda kosningabaráttunni áfram yrði hún fangelsuð og börnin hennar sett á heimili fyrir munaðarlausa. Lokshina segir að hótanir sem þessar hafi tíðkast í þó nokkurn tíma í landinu. 

Ef konur taki virkan þátt í stjórnmálum eða mótmælum, þá sé líklegt að fulltrúar yfirvalda komi í heimsókn og vari þær við; ef þær haldi mótmælunum áfram geti börnin þeirra verið tekin af þeim. Lögreglu segi við þær að þær séu alltaf úti að mótmæla og verji ekki nógu miklum tíma með börnum sínum, segir Lokshina að sagt hafi verið við konur. Á dögunum var kona handtekin í mótmælum og komst því ekki að sækja sex ára gamlan son sinn í lok skóladags. Síminn var tekinn af henni og henni haldið inni fram á kvöld. Yfirvöld reyndu ekki að ná í ættinga hennar, heldur sóttu barnaverndaryfirvöld drenginn og fóru með hann á heimili á vegum ríkisins. Mæðginin hittust á ný tveimur dögum síðar.

Lokshina segir að það sé einkar gleðilegt að á síðustu vikum hafi konur verið í forystu þeirra breytinga sem margir telja að séu eru í farvatninu. Þær skipuleggi kvennagöngur og fari fyrir friðsælum mótmælum, hvítklæddar með blóm í hönd. 

epa08699383 Participants of women's peaceful solidarity action march in Minsk, Belarus, 26 September 2020. Opposition activists continue their every day protest actions, demanding new elections under international observation.  Poster reads: ?Sveta (Light) in the end of a tunnel?.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA

Nú eru liðnir næstum tveir mánuðir síðan mótmælin brutust út. Lukasjenko sýnir ekki á sér neitt fararsnið en hefur þó opnað fyrir þann möguleika að hann sitji ekki allt kjörtímabilið, sem er fimm ár. Það er ekki það sem almenningur vill og því er mótmælt áfram. Fólk mótmælir niðurstöðu kosninganna og lögregluofbeldinu auk þess að krefjast þess að þeir sem beri ábyrgð á ofbeldinu síðustu vikur verði dregnir til ábyrgðar. Lokshina segir að enginn hafi verið ákærður fyrir ofbeldið. Fjöldi fólks sem hefur tilkynnt barsmíðar lögreglumanna og fangavarða hefur fengið þau svör að enginn grundvöllur sé til frekari rannsókna. 

epa08643495 Belarus President Alexander Lukashenko speaks with Russian Prime Minister Mikhail Mishustin (not seen) during their talks in Minsk, Belarus, 03 September 2020. Russian Prime Minister Mikhail Mishustin is on a visit to Minsk.  EPA-EFE/ALEXANDER ASTAFYEV / GOVERNMENTAL PRESS SERVICE / SPUTNIK POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - Sputnik

Að mati Lokshinu er það einkar jákvætt að Öryggis- samvinnustofnun Evrópu hafi látið sig málið varða og einnig Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Hún vonar að athygli alþjóðasamfélags verði til þess að hvítrússnesk stjórnvöld láti af ofbeldinu og að þeim sem stóðu fyrir ofbeldinu verði ekki hlíft. 

Tikanovskaya hitti Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í Vilníus í Litáen í vikunni. Þar hefur hún haldið til síðan hún flýði Hvíta-Rússland eftir kosningarnar. Fram kom eftir fund þeirra að hann hefði lofað henni hjálp við að fá þá fjölmörgu fanga lausa, sem hafa verið hnepptir í varðhald í mótmælunum og í aðdraganda kosninganna. 

Um nokkurra daga skeið dró aðeins úr lögregluofbeldinu. Lokshina segir erfitt að segja til um það hvert framhaldið verði. Fólk mótmæli enn á götum úti og ekkert lát sé á handtökum og ofbeldi. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir