Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hélt hún yrði alltaf ein eftir skilnaðinn

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

Hélt hún yrði alltaf ein eftir skilnaðinn

04.10.2020 - 09:54

Höfundar

„Ég var 38 ára gömul og hugsaði nei, þetta er búið. Nú fer ég í leshring og stafagöngu með konum á mínum aldri,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri sem kynntist kærastanum Heimi Sverrissyni fyrir tíu árum, þá nýskilin. Nýtt leikár er loksins hafið í Borgarleikhúsinu og kveðst Brynhildur óþreyjufull að fá að bjóða áhorfendum á sýningar í stóra salnum eftir margra mánaða lokun.

Brynhildur Guðjónsdóttir ákvað eftir BA-nám í frönsku að hætta við öll áform um að verða læknir og flugmaður og læra frekar leiklist úti í London enda hefur henni aldrei leiðst athyglin og hún nýtur sín jafnan best þegar hún hefur sjálf orðið. „Ég talaði út í eitt sem krakki og geri það enn. Það er mjög heppilegt fyrir leikkonuna en leikhússtjórinn þarf stundum að passa sig. Listamaðurinn hefur meira frelsi en leikhússtjórinn sem tekur ríkari ábyrgð og á að gera það,“ segir Brynhildur í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.

Mótmælti kjarnorkuvá og kjörum verkamanna sjö ára í Svíþjóð

Athyglina átti Brynhildur líka gjarnan óskipta enda er hún einbirni. Sjö ára flutti hún með foreldrum sínum til Svíþjóðar þar sem móðir hennar starfaði á leikskóla og faðir hennar var í námi. Þar gekk hún í sjö ára bekk og segir dvölina hafa verið afar mótandi fyrir sig enda kynntist hún þar sænskri nostalgíu sem hefur fylgt henni síðan. „Ég man lyktina og svo rosalega margt,“ segir Brynhildur mátaði sig á þessum tíma við helstu persónur úr bókum Astridar Lindgren. „Maður átti stóra drauma um að verða Madditt, mig langaði að eignast skóna hennar.“ Hún sá sjálfa sig líka í Emil í Kattholti og Ídu. „Ég vildi líka vera óþekk, fara út í skemmu og láta hífa mig upp í flaggstöng.“

Svía segir hún mikið fjölskyldufólk og að samvera með henni sé stór þáttur í menningunni. „Jólin eru rosalega rík í Svíþjóð, og Eurovision. Ég hef sterkar minningar af því að dansa í stofunni með frænku minni, við vorum ABBA-konurnar. Og að sitja saman, hlusta á tónlist og horfa á sjónvarp.“ Tilfinningar hinnar sjö ára Brynhildar voru líka sterkar og man hún eftir að hafa fylkt liði í bæinn í kröfugöngum og steytt hnefann. „Ég hrópaði: Enga kjarnorku og áfram verkalýðsbarátta!“ rifjar hún upp glettin. „Já, ég er dóttir fóstru og kennara.“

„Hann keypti ekki köttinn í sekknum“

Manninum sínum, Heimi Sverrissyni leikmyndahönnuði, kynntist Brynhildur bókstaflega á brókinni. Það var sameiginleg vinkona þeirra tveggja, Harpa Einarsdóttir myndlistarkona, sem hafði áform um að setja upp myndlistarsýningu og vildi hafa þar heila styttu í fullri líkamsstærð af konu. Hún bað Brynhildi að vera módel fyrir sig. Þegar módelið sagði já um hæl fékk Harpa Heimi til að koma og gera styttuna. „Við vorum bara þrjú í stúdíói og við gerðum þessa flottu styttu. Ég var bara á brókinni,“ segir leikkonan sem þótti það ekki tiltökumál enda leikarar vanir nektinni og í tengslum við líkamann. En hún grínast með það í dag. „Það má segja að hann vissi að hverju hann gekk. Hann keypti ekki köttinn í sekknum,“ segir hún og hlær.

Heimi lýsir hún sem seiðandi manni og töfrandi. „Hann er einn eldur, ljón og tómt vesen en hann er gull, yndislegheit, dýpt og hlýja. Ég fæ bara alltaf smá fiðring þegar hann hringir í mig. Og nú eru liðin tíu ár.“ Hún segist þó ekki hafa verið að leita að ástinni þegar þau Heimir kynntust enda var hún nýskilin og eiginlega búin að gefa hugmyndina upp á bátinn. „Ég var 38 ára gömul og ég hugsaði: nei, þetta er búið. Nú fer ég í leshring og stafagöngu með konum á mínum aldri, geri haustkrans og kaupi flothettu,“ rifjar hún upp. „Maður er vængbrotinn og horfir í spegil en finnst maður kannski ekkert svo sætur.“ Brynhildur var að leika í kvikmyndinni Okkar eigin Osló þegar þau Heimir kynntust og segist hún eftir á að hyggja vera þakklát fyrir hárlengingarnar sem hún skartaði af því tilefni. „Það var bara bónus.“ Og í fjölskyldunni eru þau nú rúmlega fjögur, eftir hvernig á það er litið. „Heimir á hann Daníel sem er þrítugur og Rafnhildur mín er að verða tvítug en svo eigum við svolítið af loðnum börnum,“ segir Brynhildur. „Við eigum Lottu, Kela og Mola. Það eru tveir kettir og einn lítill hundur.“

Hélt mónólóga fyrir beljurnar og sagði þeim sögur

Leikaradraumurinn hefur ekki alltaf blundað í Brynhildi eins og mörgum kollegum hennar en hún fór samt snemma að flytja mónólóga fyrir fólkið í kringum sig og jafnvel kýr. Hún lærði sem barn að hafa ofan af fyrir sér sjálf, þar sem hún var einbirni, og njóta sín í eigin félagsskap með því að láta sig dreyma dagdrauma, hlusta á útvarp, lesa þjóðsögur og fara með þær. „Ég festist í þeim og Völuspá og kunni utan að,“ segir Brynhildur.

Þegar hún var í sveit sem barn að sækja beljur þuldi hún upp sögurnar og kvæðin sem hún kunni fyrir búfénaðinn en stundum skáldaði hún líka sínar eigin. „Bæði því það var spennandi og því þannig lærir maður. Það er svo skemtilegt og gerir heiminn svo miklu stærri og þá skilur maður sjálfan sig miklu betur.“ En í fjölskyldunni voru engir leikarar svo það hvarflaði ekki að henni að fara þá leið. „Ég vildi verða flugmaður og læknir en blóð og vessar, það gengur ekki,“ segir hún. Eftir stúdentspróf lærði hún frönsku í Háskóla Íslands og þá tók hún þátt í Stúdentaleikhúsinu. Eftir það ákvað hún að fara til London í klassískt leikaranám. „Mig langaði að komast nálægt Shakespeare og þeirra ljóðahefð og ég sá að þetta væri nám fyrir mig.“

Leikkonan mun ábyggilega blaka vængjum sínum á ný

24. febrúar síðastliðinn tók Brynhildur við starfi Borgaleikhússtjóra en aðeins þremur vikum síðar þurfti hún að læsa húsinu. Hún gat loks lokið upp dyrum leikhússinn á ný 18. september en enn er strembið að sýna sum verkin þar sem vegna eins metra reglu er bara hægt að fylla salina til hálfs. Hún er þó bjartsýn á að brátt geti hún byrjað aftur að sýna fyrir fullum sal enda kveðst hún sérlega stolt af leikárinu sem er í raun samblanda af leikári síðasta árs, þeim sýningum sem ekki náðist að ljúka vegna ástandsins, og nýjum sýningum. „Ég hlakka til að geta farið að gera þetta af fullum krafti.“

Hún hefur ekki tekið að sé hlutverk um hríð enda nóg að gera í stöðu Borgarleikhússtjóra og í leikstjórastólnum sem Brynhildur hefur sest í og fengið gríðargóðar viðtökur. Þó segir hún leikkonuna ekki hafa yfirgefið sig.  „Hún er þarna og mun ábyggilega blaka vængjum sínum aftur.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Brynhildi Guðjónsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á allan þáttinn og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Ég set beintengingu milli slagsmálanna og ástandsins“

Menningarefni

Brynhildur Guðjóns ráðin borgarleikhússtjóri

Leiklist

Tekur ekki persónurnar með sér á koddann