Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Allir sem hafa fengið COVID-19 boðaðir í stóra rannsókn

Mynd með færslu
 Mynd: heilsurannsokn.is - Íslensk erfðagreining
Umfangsmikil rannsókn á eftirköstum COVID-19 er hafin hjá Íslenskri erfðagreiningu. Fyrirtækið ætlar að boða alla Íslendinga sem hafa fengið sjúkdóminn í rannsóknir. Tilgangurinn er að kortleggja eftirköst sjúkdómsins. Von er á fyrstu niðurstöðum eftir nokkrar vikur.

Fjölmargir þeirra sem fengið hafa COVID-19 glíma við eftirköst þess, jafnvel þótt mánuðir séu síðan fólkið veiktist.

Íslensk erfðagreining hefur nú hafið rannsókn á einkennunum í samstarfi við Landspítalann. Hilma Hólm, yfirmaður hjarta- og æðarannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, stýrir rannsókninni. Hún segir að fyrstu einstaklingarnir hafi komið í rannsókn á miðvikudaginn.

„Þegar þetta ástand kom upp, og við fórum að sjá að einstaklingar sem fengu COVID eru margir hverjir með einkenni löngu eftir að bráðu veikindin eru búin, þá kemur þessi hugmynd að bjóða einstaklingum sem hafa jafnað sig á bráðaveikindunum, og nokkur tími er liðinn frá þeim, að koma í þessa rannsókn,“ segir Hilma.

„Við og aðrir úti í heimi erum að sjá að einstaklingar sem fengu COVID eru mörgum mánuðum síðar enn þá að kljást við ýmis einkenni. Vandamál með lungnastarfsemi, mikla þreytu og ýmislegt annað sem hefur verið nefnt. En við vitum ekki hversu víðfemt það er, hversu algengt það er og hvort þessi einkenni séu að koma fram í öðrum líffærakerfum en maður hefði mátt búast við. Og það var áhugi á að meta það.“

Ítarleg rannsókn

Ýmis líffærakerfi eru skoðuð, svo sem lungu og hjarta, en andlegt ástand fólks er einnig kannað. Rannsóknin tekur um fjóra klukkutíma fyrir hvern. Að því loknu fær viðkomandi niðurstöðurnar á blaði.

„Það sem við erum að gera núna er að við erum að rannsaka þá sem fengu sjúkdóminn í fyrstu bylgju, í mars og apríl. Nú eru sex mánuðir síðan það var. Þeir fá beiðni frá okkur um að taka þátt í þessari rannsókn. Og ef þeir þiggja það byrja þeir á að svara spurningalista sem er á netinu, um lífsstíl, heilsutengd lífsgæði, heilsu og líðan. Og síðan koma þeir í heimsókn til okkar í þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna þar sem þeir fara í gegnum ferli sem tekur um það bil fjóra klukkutíma. Þar svara þeir spurningalista um ýmis einkenni, og síðan eru gerðar alls konar mælingar. Við mælum lífsmörk, við gerum öndunarpróf, við gerum hjartalínurit, við gerum áreynslupróf, við mælum lykt og bragðskyn og heyrn. Við gerum augnrannsókn, tökum mynd af augnbotnum og skoðum meðal annars æðar. Og síðan í lok dags er farið yfir niðurstöðurnar með þátttakendunum. Og ef okkur þykir ástæða til, þá ræðum við við þátttakandann um að fá að tala við okkar samstarfsmenn á heilsugæslunni og Landspítalanum um að koma þeim í ferli innan heilbrigðiskerfisins ef ástæða þykir til.“

Hverju vonist þið til að þessi rannsókn skili?

„Við vonumst til þess að fá hugmynd um það, hvaða einkenni fólk er helst að kljást við sex mánuðum eftir að það fékk COVID, eða síðar, og hversu víðfeðm þau einkenni eru.“

Niðurstöður eftir fyrstu 100

Hilma segir að haft verði samband við fólk sem fengið hefur COVID.

„Við teljum okkur hafa upplýsingar um alla þá sem greindust með COVID í fyrstu bylgjunni. Og við sendum þeim öllum boð um þátttöku. En ekki öllum í einu. Þetta eru um 2.000 manns og við erum búin að senda boð á um 250. Rannsóknin er langt ferli og við getum ekki sinnt nema í mesta lagi 15 til 18 á dag. Þannig að það er ljóst að ekki allir þeir sem fengu COVID á þessu tímabili munu fá boð fyrr en eftir einhverjar vikur.“

En eigið þið von á að geta rannsakað allt þetta fólk, kannski yfir 2.000 manns?

„Við stefnum á það. Við stefnum á að allir sem samþykkja þátttökuna, að þeir fái tækifæri til þess.“

Þannig að þið stefnið á að senda boð á alla Íslendinga sem hafa fengið COVID?

„Já, við stefnum á það.“

Það er ljóst að þetta er ansi umfangsmikil rannsókn?

„Hún er mjög umfangsmikil, já.“

Hvenær má búast við fyrstu niðurstöðum?

„Við höfum hugsað okkur að eftir að hundrað þátttakendur hafa tekið þátt hjá okkur, þá ætlum við að fara yfir þær niðurstöður, og gera þær aðgengilegar, bæði fyrir heilbrigðisstofnanir og líka þátttakendur. Þannig að við fáum einhverja hugmynd eftir fyrstu 100 þátttakendur.“

Hvenær verður það?

„Við erum að byrja frekar hægt. Við fáum 10 þátttakendur á dag þannig að eftir 10 daga erum við komin með 100. En svo tekur náttúrulega smá tíma að vinna úr þessum gögnum.“

Þannig að þetta gæti orðið í lok október?

„Já, ég held að það sé rétt.“

Skimuðu mikið

Hilma segir að svona rannsókn sé ekki aðeins í vinnslu á Íslandi.

„Við vitum til þess að þessar rannsóknir eru í bígerð mjög víða. Sex mánuðir frá COVID er tímabilið sem er núna að renna upp og það er mjög mikill áhugi á að rannsaka akkúrat þetta.“

Er ekki líklegt að þessi rannsókn hér á Íslandi veki athygli út fyrir landsteinana?

„Jú, það getur alveg vel verið. Ég held að það sem við höfum, sem aðrir hafa kannski ekki, sé upplýsingar um einstaklinga sem fengu sjúkdóminn en urðu ekki það alvarlega veikir að þeir þurftu að leggjast inn. Við höfum þessar upplýsingar vegna þess að við skimuðum svo mikið í mars og apríl. Og það getur vel verið að þótt sjúkdómurinn hafi ekki verið alvarlegur í upphafi, að þeir séu samt að kljást við einkenni og afleiðingar sjúkdómsins svona löngu síðar,“ segir Hilma.