Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vinnumálastofnun: 25.000 manns atvinnulaus í árslok

Mynd með færslu
Heimavellir byrja á næstunni að leigja út íbúðir í Bryggjuhverfi Mynd:
Vinnumálastofnun hefur hækkað spá sína um fjölgun atvinnulausra á landinu og telja sérfræðingar stofnunarinnar að um 25.000 manns verði án atvinnu um áramótin, eða á bilinu 11 - 12 prósent vinnuaflsins. Þetta kom fram í erindi Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar á fjármálaráðstefnu íslenskra sveitarfélaga í gær. Morgunblaðið greinir frá.

 

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna var til umræðu á ráðstefnunni og benti Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, á að slík aðstoð er fylgifiskur atvinnuleysis. Því horfi sveitarfélögin fram á „verulegan útgjaldavöxt til fjárhagsaðstoðar á næstu árum."

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að könnun á útgjöldum tíu stærstu sveitarfélaga landsins sýni að kostnaður við fjárhagsaðstoð aukist um 30 prósent á þessu ári og muni aukast um 60 prósent á næsta ári. 3,2 milljarðar fóru í fjárhagsaðstoð þessara tíu sveitarfélaga 2019, og áætlað er að 6,7 milljarðar fari í hana á næsta ári. Útlit sé fyrir að sveitarfélög landsins vanti allt að 50 milljarða króna til að mæta vaxandi útgjöldum næstu ára, 20 milljarða hallarekstur á þessu ári og 11 milljörðum lægri tekjur af útsvari.