Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þórólfur: „Mér sýnist að þetta sé komið í veldisvöxt“

03.10.2020 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fjöldi smita sem greindist í gær sé töluvert meiri en hann hefði viljað sjá. Fjölgun smita hafi verið í línulegum vexti. en þróunin undanfarna tvo daga bendi til þess að það sé breytt. Hann hefur skilað heilbrigðisráðherra minnisblaði með tillögum um hertar sóttvarnaaraðgerðir.

„Nú eru þetta tveir dagar í röð. Mér sýnist að þetta sé komið í veldisvöxt, það er eitthvað sem maður vill ekki sjá,“ segir Þórólfur.

„Sömuleiðis eru þyngslin á Landspítalanum að aukast, þar eru ennþá 13 einstaklingar inniliggjandi. Það eru líka mikil þyngsli á COVID-göngudeildinni og mér sýnist nokkuð einboðið að það muni fleiri þurfa að leggjast inn á spítalannn á næstu dögum.“

Þórólfur segir að þegar þessar tvær stærðir séu lagðar saman; veldisvöxturinn og aukið álag á Landspítala, þá verði að grípa til harðari aðgerða.  „Til að sveigja kúrfuna betur niður,“ segir hann.

Greint var frá því í gær að Þórólfur væri með minnisblað í vinnslu þar sem lagðar væru til harðari aðgerðir við heilbrigðisráðherra. „Ég er búinn að senda minnisblaðið til ráðherra þar sem ég kem með ákveðnar tillögur.“

Aðspurður segir Þórólfur að um væri að ræða hertar fjöldatakmarkanir og ýmsar aðrar takmarkanir, en hann myndi ekki greina frá efni þess fyrr en ráðherra hefði farið yfir minnisblaðið. Um væri að ræða  áþekkar aðgerðir sem gripið var til í fyrstu bylgju faraldursins sem m.a. fólust í 20 manna fjöldatakmörkunum. Stjórnvöld munu fjalla um tillögurnar í dag

„Ég mun leggja til að þetta taki gildi eins fljótt og hægt er,“ segir Þórólfur.