Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Styttist í endurkomu Max-vélanna

03.10.2020 - 20:00
Flugrekstrarstjóri hjá Icelandair telur líklegt að flugbanni á Boeing Max-vélunum verði aflétt í næsta mánuði. Flugprófanir vestanhafs og í Evrópu hafa gengið vel og reiknar Icelandair með því að taka vélarnar aftur í notkun snemma á næsta ári.

Max-vélarnar voru kyrrsettar í mars á síðasta ári eftir tvö alvarleg flugslys þar sem hátt í 350 manns fórust. Slysin voru rakin til galla í vélunum og síðan þá hefur Boeing unnið að því að koma þeim aftur í notkun.

Flugöryggisstofnanir, meðal annars í Bandaríkjunum og Evrópu, hafa á síðustu mánuðum reynsluflogið vélunum til að leggja mat á öryggi þeirra og þær breytingar sem búið er að gera.

Haukur Reynisson flugrekstrarstjóri hjá Icelandair segir að búið sé að yfirfara vélina og lagfæra alla galla.

„Þetta ferli er búið að taka tæpt eitt og hálft ár og það má segja að því sé að ljúka núna, samþykktarferlinu sem slíku. Það er reyndar ekki allt saman klárað. Það á eftir að meta þjálfunarkröfur sem koma út úr þessu. Það á eftir að gera tillögur að ákveðnum breytingum sem að koma út úr ferlinu líka. Þannig að við erum komin ansi langt með þetta og áætlað að flugbanninu verði aflétt í Bandaríkjunum í næsta mánuði,“ segir Haukur.

Icelandair var með sex Max-vélar í notkun þegar þær voru kyrrsettar á sínum tíma. Félagið ætlar kaupa sex vélar til viðbótar á næstu árum. Haukur segir að þetta ferli sem nú er ljúka sé einstakt í flugsögunni.

„Svona ferli hefur aldrei átt sér stað áður. Þetta er í fyrsta skipti sem að vél fer í gegnum endursamþykktarferli alveg í heild sinni eins og var gert núna,“ segir Haukur.

Icelandair hyggst taka vélarnar aftur í notkun á næsta ári en Haukur telur að það verði ekki erfitt að sannfæra farþega um að fljúga með vélinni á ný.

„Þegar að fólk fær upplýsingar um það hvað hefur verið gert og gerir sér grein fyrir því að flug miðast að því að gæta ítrustu varúðar og öryggis í öllum þáttum þá held ég að fólk komi til með að treysta á það öryggiskerfi sem við erum að reka í dag,“ segir Haukur

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV