Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á fimmtudagskvöld vakti nokkra athygli að Sigmundur Davíð sagði frumvarp sem forsætisráðherra kynnti í ríkisstjórn í vikunni um réttindi intersex barna, „óhugnanlegasta þingmál“ sem hann muni eftir frá seinni tíð. Í frumvarpinu felst meðal annars að tryggja rétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum. „Þetta er auðvitað afrek að mæta í pontu og tala um þessa hluti. Vegna þess að hann var að tala um okkur öll. Ekki bara lesbíur og homma eða intersex heldur okkur öll,“ sagði Bubbi. Hann klykkti svo út með: „Sigmundur Davíð, þetta var lélegt maður!“
Rithöfundurinn Birna Anna Björnsdóttir tók undir með Bubba. „Þegar við erum að horfa til framfara, eins og þessa frábæra frumvarps um kynrænt sjálfræði, þá er alltaf einhver sem sér færi í því að koma með þessar afturhaldshugmyndir. Við viljum ekki sjá það í okkar samfélagi sem er að fara fram á við.“ Þá sé mikilvægt að andmæla slíkum hugmyndum kröftuglega og á opinberum vettvangi. „Það er ekki nóg að standa bara hjá. Þegar við viljum bæta mannréttindi þurfum við öll að taka þátt og segja það.“