Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mannskæð flóð í kjölfar storms í Frakklandi og Ítalíu

03.10.2020 - 22:59
Erlent · Hamfarir · Flóð · Frakkland · Ítalía · Óveður · Evrópa · Veður
epaselect epa08717224 A truck is submerged by mud after flooding of the Vesubie river due to heavy rain from 'Alex' storm in Roquebilliere, France, 03 October 2020. Heavy rain and wet weather are expected as Storm Alex affects southern France.  EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst tveir menn týndu lífi og tuga er saknað eftir að heljarstormur gekk yfir sunnanvert Frakkland og norðvesturhéruð Ítalíu. Stormurinn, sem fékk nafnið Alex, olli feiknartjóni í mörgum smábæjum í næsta nágrenni frönsku borgarinnar Nice. Mikið úrhelli fylgdi storminum og sagði borgarstjórinn í Nice að flóðin sem það orsakaði í þorpunum í kring hafi verið þau mestu í manna minnum.

Spásprænur breyttust í beljandi stórfljót og ár flæddu yfir bakka sína og ruddu vegum, brúm og byggingum á braut. Sama var uppi á teningnum austan landamæranna, í Aostadalnum og Piedmont, eða Ágústudal og Fjallalandi.

Heilu þorpin eru einangruð frá umheiminum eftir að vegir og brýr eyðilögðust í flóðum og aurskriðum. Hundruð leitar- og björgunarsveitarfólks eru að störfum á hamfarasvæðunum og fleiri á leiðinni. Tugum hefur þegar verið bjargað með þyrlum frá umflotnum þorpum sem sum eru í hálfu kafi, ýmist í aur eða vatni.

Hinir látnu voru báðir Ítalir. Annar þeirra var slökkviliðsmaður sem var við björgunarstörf í Ágústudal og hinn ölkumaður bifreiðar sem áin Sesía hreif með sér, um 100 kílómetrum austar. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV