Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Manni er vissulega verulega brugðið“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Líkamsræktarstöðvum verður gert að loka á mánudaginn samkvæmt hertum sóttvarnaaðgerðum sem taka þá gildi. Eigendur þeirra hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi það sem af er ári vegna lokana og sóttvarnaráðstafana. Þröstur Jón Sigurðsson, einn eigenda Sporthússins i Kópavogi, segir þetta verulegt áfall, þó að vissulega styðji hann ákvarðanir sóttvarnayfirvalda.

 

„Ég get ekki neitað því að manni er vissulega verulega brugðið. En auðvitað þurfa allir að hjálpast að og standa saman í þessum aðgerðum. Maður er eiginlega miður sín yfir því á þessum árstíma, í „high season“ hjá okkur, að  þurfa að fara í lokun. Þetta er bara besti  tími ársins, byrjun október,“ segir Þröstur.

Hann segir tekjumissi Sporthússins vegna sóttvarnaaðgerða og lokana í ár vera umtalsverðan, en hann felist ekki síst í því að fólk hiki við að kaupa sér kort í líkamsræktarstöðvum vegna þeirra óvissu sem fylgi faraldrinum.

„Auðvitað eru engir að  gera samninga á meðan allt er lokað. En fólk er hins vegar að loka samningunum sínum. Þannig að það er rosalega erfitt að sjá það til lengri tíma og reyna að segja til um það hversu mikill skaðinn er . en það sem manni líður  verst með er að maður er ekki einu sinni að sjá stuðning frá hinu opinbera  í þessum lokunum.“