
Hrafnista breytir heimsóknareglum vegna smita
Í tilkynningu frá Neyðarstjórn Hrafnistu kemur fram að aðeins einn gestur megi heimsækja hvern íbúa á fyrirfram ákveðnum heimsóknartíma hvers heimilis. Þá er óskað eftir því að gesturinn sé nánast í sjálfskipaðri sóttkví og passi sig sérstaklega.
Allir gestir þurfa að vera með grímu fyrir vitum á meðan á heimsókn stendur og er sérstaklega tekið fram að ekki megi vera með taugrímu.
Neyðarstjórnin setur einnig aldurstakmörk á heimsóknargesti í ljósi þess að flest smit nú séu hjá fólki á aldrinum 18 til 29 ára. Hrafnista óskar eftir því að fólk á þessum aldri heimsæki ekki hjúkrunarheimilin. Börn yngri en 18 ára geti ekki heldur komið í heimsókn.
Jafnframt er þess óskað að heimsóknargestir komi í mesta lagi tvisvar í viku sé þess unnt. „Undanþága er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf að fá leyfi vaktstjóra deildar,“ segir í tilkynningunni frá Hrafnistu.