Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hrafnista breytir heimsóknareglum vegna smita

03.10.2020 - 15:47
Mynd með færslu
Hrafnista. Mynd úr safni. Mynd: Rúv
Neyðarstjórn Hrafnistuheimilanna hafa ákveðið að bregðast við auknum fjölda COVID-19 smita í samfélaginu með því að takmarka fjölda heimsóknargesta. Breytingarnar taka gildi í dag á öllum Hrafnistuheimilunum. Fólk á aldrinum 18-29 er beðið um að koma ekki í heimsókn, þar sem smit eru flest í þeim aldurshópi.

Í tilkynningu frá Neyðarstjórn Hrafnistu kemur fram að aðeins einn gestur megi heimsækja hvern íbúa á fyrirfram ákveðnum heimsóknartíma hvers heimilis. Þá er óskað eftir því að gesturinn sé nánast í sjálfskipaðri sóttkví og passi sig sérstaklega. 

Allir gestir þurfa að vera með grímu fyrir vitum á meðan á heimsókn stendur og er sérstaklega tekið fram að ekki megi vera með taugrímu. 

Neyðarstjórnin setur einnig aldurstakmörk á heimsóknargesti í ljósi þess að flest smit nú séu hjá fólki á aldrinum 18 til 29 ára. Hrafnista óskar eftir því að fólk á þessum aldri heimsæki ekki hjúkrunarheimilin. Börn yngri en 18 ára geti ekki heldur komið í heimsókn.

Jafnframt er þess óskað að heimsóknargestir komi í mesta lagi tvisvar í viku sé þess unnt. „Undanþága er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf að fá leyfi vaktstjóra deildar,“ segir í tilkynningunni frá Hrafnistu.

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV