Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fá börnin í al-Hol að snúa heim til Svíþjóðar?

Mynd:  / 
Í al Hol fangabúðunum í Sýrlandi hafast við um 60 þúsund konur og börn sem tengjast hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu. Þar af eru nær 35 þúsund börn undir 12 ára aldri, hverra foreldrar hafa eða höfðu tengsl við samtökin. Ástandið í búðunum er hræðilegt, þar lést 331 barn í fyrra. En hvaða framtíð bíður þessarra barna, sem mörg eru fædd eða eiga ættir að rekja utan Sýrlands? Meðal annars til Norðulandanna.

„Hann er með bollukinnar sem mann langar bara að klípa í og hann hleypur um og nú er hann byrjaður að tala aðeins, og hann hlær - þetta er yndislegt,“  segir Gautaborgarbúinn Patricio Galvez þegar hann lýsir dóttursyni sínum, sem er tveggja ára, í viðtali sem tekið var nú í sumar.

Þetta hefur hins vegar ekki alltaf verið yndislegt. Í fyrravor var drengurinn vannærður, veikur og máttlítill. Líkt og systkini hans sex, enda aðstæður hörmulegar í fangabúðunum þar sem þau höfðust við.

Patricio Galvez býr í vesturhluta Gautaborgar. Hann er ríflega fimmtugur og bæði sænskur og sílenskur ríkisborgari. Sem kemur engum á óvart sem hefur heyrt eða séð hann spila með hljómsveit sinni Lecheburro.

Fór til Sýrlands og kom aldrei aftur heim

Dóttir Patricio Galvez, Amanda, var listhneigð eins og faðirinn og fór í leiklistarnám eftir menntaskóla. Og gekk að sögn vel. Leiklistin varð þó smám saman að láta í minnipokan fyrir öðru hugðarefni hennar - líkt og flestallt í lífi hennar. Þegar Amanda var að klára grunnskólann fékk hún vaxandi áhuga á íslam. Hún las trúarlega texta og æfði sig í að læra þá utan að.

Áhuginn jókst og breyttist í sannfæringu. Hún sagði skilið við sitt fyrra líf, giftist trúbróður sínum - manni að nafni Michael Skråmo og hafði eignast fjögur börn árið 2014, þegar hún tjáði föður sínum að fjölskyldan væri á leið til Tyrklands í tveggja vikna sumarfrí.

En Amanda kom aldrei heim. Og eftir nokkra mánuði fékk Patricio tölvupóst frá dóttur sinni þar sem hún harmaði að hafa logið að honum. Fjölskyldan var komin til Sýrlands, í stríð með hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.

Varð einn af þekktustu liðsmönnum Íslamska ríkisins

Michael Skråmo, eiginmaður Amöndu, varð á þessum árum einn af þekktustu liðsmönnum íslamska ríkisins af þeim sem koma frá Norðurlöndunum. Skråmo var mikilvirkur í því að birta myndir og myndbönd frá vígvöllum Sýrlands, þar sem hann, oft vopnaður og í herklæðnaði, hvatti fólk frá Svíþjóð og Noregi til að koma til Sýrlands og ganga til liðs við samtökin.

Á síðustu árum hafa alls um 300 sænskir ríkisborgarar farið til átakasvæða til að taka þátt í stríði, einkum í Sýrlandi og Írak. Um helmingur þeirra hefur síðan snúið aftur til Svíþjóðar, að mati sænsku öryggislögreglunnar, Säpo.

Mynd með færslu
 Mynd: expressen.se
Michael Skråmo, eiginmaður Amöndu.

Fór til Sýrlands til að ná í barnabörnin

Vorið 2019 féll síðasta vígi íslamska ríkisins í Barghouz og eftir það réðu samtökin ekki lengur yfir neinu landsvæði í Írak eða Sýrlandi.

Patricio Galvez hafði allan þennan tíma - í um fimm ár - lagt sig fram um að halda að minnsta kosti einhverju sambandi við dóttur sína. Hann fékk einstaka SMS frá Amöndu og talaði jafnvel við hana í síma. Hann reyndi eftir fremsta megni að gagnrýna hvorki hana né eiginmann hennar, né heldur þá ákvörðun þeirra að halda til Sýrlands. Slík gagnrýni gæti orðið til þess að hann missti allt samband við dóttur sína og barnabörn. Þeim fjölgaði. Þrjú börn fæddust inn í fjölskylduna eftir að hún flutti inn á yfirráðasvæði hins svonefnda íslamska ríkis.

Michael Skråmo er talinn hafa látið lífið í mars 2019 þótt dauði hans hafi reyndar aldrei verið staðfestur. Amanda féll í loftárás í lok árs 2018. Börnin þeirra sjö, nú foreldralaus, það yngast ekki orðið eins árs, voru flutt í al Hol fangabúðirnar, í norðaustur-Sýrlandi, þar sem þau höfðust við ásamt um 70 þúsund konum og börnum sem tengdust hinu fallna ríki hryðjuverkasamtakanna.

Það var á þessum tímapunkti sem Galvez ákvað að leggja af stað sjálfur, til Sýrlands, til að freista þess að bjarga lífi barnabarnanna sinna. Með stuðningi vina, kunningja og velvildarfólks tókst honum að komast frá Gautaborg til Norðaustur-Sýrlands, á yfirráðasvæði Kúrda, og hitta loks börnin í fangabúðunum. Þau voru ekki vel á sig komin.

In this undated image taken from video posted online by Communications Arm of Islamic State, circulating online Sunday Jan. 3, 2016, purporting to show a member of the Islamic State group brandishing a gun and talking to camera,  before Islamic State
 Mynd: AP - Communications Arm of Islamic St
Úr áróðursmyndbandi Íslamska ríkisins.

Hélt sambandi við dóttur sína

Vorið 2019 féll síðasta vígi íslamska ríkisins í Barghouz og eftir það réðu samtökin ekki lengur yfir neinu landsvæði í Írak eða Sýrlandi.

Patricio Galvez hafði allan þennan tíma - í um fimm ár - lagt sig fram um að halda að minnsta kosti einhverju sambandi við dóttur sína. Hann fékk einstaka SMS frá Amöndu og talaði jafnvel við hana í síma. Hann reyndi eftir fremsta megni að gagnrýna hvorki hana né eiginmann hennar, né heldur þá ákvörðun þeirra að halda til Sýrlands. Slík gagnrýni gæti orðið til þess að hann missti allt samband við dóttur sína og barnabörn. Þeim fjölgaði. Þrjú börn fæddust inn í fjölskylduna eftir að hún flutti inn á yfirráðasvæði hins svonefnda íslamska ríkis.

Michael Skråmo er talinn hafa látið lífið í mars 2019 þótt dauði hans hafi reyndar aldrei verið staðfestur. Amanda féll í loftárás í lok árs 2018. Börnin þeirra sjö, nú foreldralaus, það yngast ekki orðið eins árs, voru flutt í al Hol fangabúðirnar, í norðaustur-Sýrlandi, þar sem þau höfðust við ásamt um 70 þúsund konum og börnum sem tengdust hinu fallna ríki hryðjuverkasamtakanna.

Það var á þessum tímapunkti sem Galvez ákvað að leggja af stað sjálfur, til Sýrlands, til að freista þess að bjarga lífi barnabarnanna sinna. Með stuðningi vina, kunningja og velvildarfólks tókst honum að komast frá Gautaborg til Norðaustur-Sýrlands, á yfirráðasvæði Kúrda, og hitta loks börnin í fangabúðunum. Þau voru ekki vel á sig komin.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Þeir sem minnst mega sín hafa orðið illa úti í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi.

„Börnin voru með hita og hóstuðu,“ sagði Galvez í viðtali við sænska ríkisútvarpið um þetta leyti. Þau voru soltin, vannærð.

Ekki einfalt að taka börnin heim

Heilbrigðisstarfsfólk í búðunum hvatti Galvez að hans sögn til að fara með börnin þaðan eins fljótt og auðið væri. Í al Hol gætu þau ekki fengið þá heilbrigðisþjónustu sem þau þyrftu nauðsynlega á að halda. En það var ekkert einfalt mál eða sjálfsagt að hafa með sér börnin. Til að mega taka börnin með sér, þurfti Galvez að sýna kúrdískum yfirvöldum opinbera beiðni frá sænskum stjórnvöldum. Og það virtist ætla að verða flókið mál að verða sér úti um hana.

„Ferlið er flókið,“ hafði sænska ríkisútvarpið eftir starfsmönnum utanríkisráðuneytisins. Það þurfi leyfi, og það þurfi að ganga úr skugga um hver börnin séu. Og það eigi ekki bara við um barnabörn Patricio Galvez, heldur öll sænsk börn með tengsl við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki.

On 24 February 2016, a little girl waits in line at Vinojug transit center, near the town of Gevgelija, to board the train to the Serbian border. Refugees and migrants are crossing from Greece into the Vinojug Transit Center, near the town of Gevgelija.
 Mynd: Unicef
Sýrlensk börn í flóttamannabúðunum í Gevgelija í Norður-Makedóníu árið 2016.

Frá Sýrlandi til Írak

Galvez hélt því til borgarinnar Erbil í Írak, skráði sig inn á hótel og beið. Í meira en þrjár vikur.  Þegar fréttamaður sænska ríkisútvarpsins hitti hann á hótelinu, kvartaði Galvez undan því að geta ekki hitt börnin eða einu sinni hringt í þau til að segja þeim að afi þeirra væri að bíða eftir þeim. Hann hafði keypt mat og kex og leikföng, legó. Og útbúið stórt fleti á hótelherberginu, þar sem börnin gætu sofið öll saman í einni kös og upplifað öryggi.

Börnin voru öll veik þegar þau losnuðu úr fangabúðunum og þegar þau komu loks til til Svíþjóðar voru falin í umsjá félagsmálayfirvalda í Gautaborg og þeim fundnir forráðamenn.

Nú í sumar sagði Galvez í viðtali við sænska ríkissjónvarpið að börnunum liði öllum vel. Þau byggju hjá góðum fjölskyldum, væru örugg, hefðu náð heilsu og væru glöð og léku sér.

„Þau fá allan þann kærleika og þá umönnun sem þau þurfa,“ sagði Galvez.

epa05289815 Children play as Syrian refugees cross to a camp on the Jordanian side at the north east of Jordan border with Syria, Al-Hadalat crossing point near Royashed Town, Jordan, 04 May 2016. according to the Jordanian Commander of the Borders Guards
Sýrlensk börn að leik í öðrum flóttamannabúðum við landamæri Jórdaníu og Sýrlands. Mynd: EPA
Sýrlensk börn að leik í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

Hryllegar aðstæður í al Hol.

En hvað með önnur börn í fangabúðunum?

Fyrir tveimur vikum birti rannsóknarnefnd á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna skýrslu um ástandið í Sýrlandi - meðal annars í búðunum í al Hol. Um einu og hálfu ári eftir að barnabörn Patricio Galvez komu aftur til Svíþjóðar, eru þar um 60 þúsund konur og börn sem tengjast hinu svokallaða Íslamska ríki. Þarf af eru nær 35 þúsund börn undir tólf ára aldri. Paulo Sérgio Pinheiro, sem fór fyrir rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna sagði aðbúnaðinn í al Hol hrylllilegan.

„Að svo mörg ung börn séu í haldi , við svo ómannúðlegar aðstæður, í svo langan tíma, án þess að þau geti leitað réttar síns - það er ekki bara ólöglegt heldur skammarlegt“, sagði Pinheiro, og hvatti aðildarþjóðir til að flytja ríkisborgara sína úr búðunum og til síns heima. Sérstaklega börn með mæðrum sínum.

Þetta virðast Svíar þó tregir til að gera. Talið er að um 50 börn sænskra ríkisborgara séu enn í fangabúðunum al Hol. Og biðin getur verið banvæn. Matur og heilbrigðisþjónusta eru af skornum skammti í búðunum. Sultur, sjúkdómar og ofbeldi er daglegt brauð. Á síðasta ári lést 331 barn í fangabúðunum.

Fréttaritari sænska ríkissjónvarpsins heimsótti al Hol í apríl í fyrra og ræddi við Svía sem þar eru í haldi.

„Þú trúir ekki hvað það er gott að tala við sænska manneskju,“ segir kona sem er hulin frá toppi til táar, og er í búðunum með þremur börnum sínum. “Af hverju taka þau mynd?“ spyrja börnin. „Segiði hæ til Svíþjóðar,“ hvetur mamman þau.

Flókið að koma börnunum heim

Mannúðarsamtök á borð við Rauða krossinn hafa ítrekað hvatt sænsk stjórnvöld til að aðhafast í málinu. Rädda Barnen - Barnaheill hér í Svíþjóð - skrifuðu bréf strax í apríl í fyrra til forsætisráðherrann Stefans Löfven, þar sem stjórnvöld voru sögð óþolandi svifasein í málinu. Og þess krafist að stjórnvöld aðstoði börnin við að koma til Svíþjóðar með foreldrum sínum.

„Við teljum að það eigi að draga skýra línu þegar kemur að réttindum barna. Og þá línu má ríkisstjórnin ekki fara yfir,“ sagði Ola Mattsson, hjá Rädda barnen í samtali við sæska ríkisútvarpið.

Stjórnvöld bentu aftur á móti á að það væri flókið að komast að því hver sé hver - hvort fólk segi rétt til nafns, hvaða börn séu með tengingar við Svíþjóð, og hvernig hægt sé að koma fólki frá Sýrlandi með öruggum hætti. Það tæki tímann sinn að finna út úr þessu. Og enn flókara væri það þegar foreldrarnir væru grunaðir um glæpi.

Rúmum átta mánuðum seinna, skömmu fyrir síðustu jól, fóru sendimenn sænska ríkisins svo í al Hol til að sækja fáein munaðarlaus börn - færri en fimm, segja fjölmiðlar. Allt var til reiðu, allir pappírar og leyfi, en þegar á hólminn var komið, fundust börnin ekki. Utanríkisráðherrann Ann Linde sagði að ættingjarnir barnanna hafi falið börnin.

„Við vitum ekki hvar börnin eru,“ sagði utanríkisráðherrann. Og það vita yfirvöld á staðnum ekki heldur.

epaselect epa05281817 Syrians at the site of airstrikes in the rebel-held neighbourhood of Bustan Al Qasr in Aleppo, Syria, 28 April 2016. At least 34 people were killed by shelling and missile fire in the Syrian city of Aleppo, the largest in the north
Aleppoborg er illa farin eftir stríðsátökin undanfarin ár. Mynd: EPA
Frá Aleppó í Sýrlandi í apríl 2016.

Rétta þurfi yfir sænskum ÍSIS-liðum

Þetta er ekki bara aulaháttur í Svíum. Aðstæður í al Hol eru erfiðar - um 60 þúsund manns í fangabúðum sem ætlað er að hýdsa 10 til 20 þúsund. Konurnar flestar með hulin andlit. Margir fanganna eru hættulegir stríðsglæpamenn auk þess sem þeir segja oft rangt til nafns og ljúga til um þjóðerni.

Og svo er spurning hvort sænsk stjórnvöld vilji fá börnin heim. Ekki ef það þýðir að mæður þeirra koma með. Stefna ríkisstjórnarinnar er að það eigi að rétta yfir grunuðum ÍSIS-liðum í Sýrlandi, þar sem meintir glæpir þeirra voru framdir.

Sendifulltrúi Svíþjóðar í Sýrlandi vísar til þessa sem einnar af ástæðum þess að ekki sé hægt að sækja sænska ríkisborgara og flytja til Svíþjóðar. Svíar vilja samt fá sænsk börn heim, þegar og ef það er mögulegt. Sendifulltrúinn viðurkenndi samt í samtali við Expressen í sumar að það gangi að fá sænsk börn heim. Ástæðan er að Kúrdar, sem stýra al Hol fangabúðunum, eru mótfallnir því að börn séu skilin frá mæðrum sínum. Slíkt sé ekki í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Mæður barnanna eru heldur ekki á því að skiljast við börn sín. „Ég ætla aldrei að láta börnin mín frá mér“ hefur sænska Expressen eftir sænskri móður í al Hol.

Það er því helst að fólk komist aftur til Svíþjóðar með því að flýja hreinlega úr fangabúðunum. Í sumar tókst tveimur sænskum konum að flýja frá al Hol og komast til Tyrklands ásamt fjórum eða fimm ungum börnum sínum og þaðan til Svíþjóðar. Aftur á móti hefur ekki eitt einasta sænskt barn komið til Svíþjóðar síðasta árið, fyrir tilstilli sænskra yfirvalda.

Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar, tilkynnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fara að tilmælum framkvæmdastjórnar ESB um að loka landamærum landsins fyrir umferð fólks frá löndum utan ESB og Schengen.
Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar, tilkynnir fyrirhugaða lokun landamæranna Mynd: SVT
Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar.

Það er gott að eiga afa eins og Patricio

Stjórnvöld hér í Svíþjóð hafa enn ekki kynnt neinar áætlanir um að ná í börnin. Innanríkisráðherrann, Jafnaðarmaðurinn Mikael Damberg ítrekar bara að meintir ÍSIS-liðar eigi að svara til saka þar sem glæpirnir voru framdir. Og það finnst greinilega ekki öllum það vera sjálfsagt mál að taka börn frá mæðrum sínum, jafnvel þótt erindrekar sænska ríkisins hafi sýnt ákveðinn vilja til þess. Og því eru börnin áfram í fangabúðunum.

Kuldaleg upphafsorð Brekkukotsannáls eiga kannski óvíða jafn vel við og í tilfelli barnabarna Patricio Galvez:

„Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föður sinn.“

Börnin voru auðvitað líka heppin að eiga dugmikinn afa, sem gat sótt þau og komist í gegnum allar skrifræðislegar hindranir.

Þau þrífast vel í dag, segir afinn. Öll sjö. En á meðan eru um fimmtíu sænsk börn og líklega um 35.000 börn til viðbótar, föst í einhvers konar djöfullegu limbói í al Hol fangabúðunum. Það getur verið gott að eiga afa eins og Patricio Galvez.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV