„Hann er með bollukinnar sem mann langar bara að klípa í og hann hleypur um og nú er hann byrjaður að tala aðeins, og hann hlær - þetta er yndislegt,“ segir Gautaborgarbúinn Patricio Galvez þegar hann lýsir dóttursyni sínum, sem er tveggja ára, í viðtali sem tekið var nú í sumar.
Þetta hefur hins vegar ekki alltaf verið yndislegt. Í fyrravor var drengurinn vannærður, veikur og máttlítill. Líkt og systkini hans sex, enda aðstæður hörmulegar í fangabúðunum þar sem þau höfðust við.
Patricio Galvez býr í vesturhluta Gautaborgar. Hann er ríflega fimmtugur og bæði sænskur og sílenskur ríkisborgari. Sem kemur engum á óvart sem hefur heyrt eða séð hann spila með hljómsveit sinni Lecheburro.
Fór til Sýrlands og kom aldrei aftur heim
Dóttir Patricio Galvez, Amanda, var listhneigð eins og faðirinn og fór í leiklistarnám eftir menntaskóla. Og gekk að sögn vel. Leiklistin varð þó smám saman að láta í minnipokan fyrir öðru hugðarefni hennar - líkt og flestallt í lífi hennar. Þegar Amanda var að klára grunnskólann fékk hún vaxandi áhuga á íslam. Hún las trúarlega texta og æfði sig í að læra þá utan að.
Áhuginn jókst og breyttist í sannfæringu. Hún sagði skilið við sitt fyrra líf, giftist trúbróður sínum - manni að nafni Michael Skråmo og hafði eignast fjögur börn árið 2014, þegar hún tjáði föður sínum að fjölskyldan væri á leið til Tyrklands í tveggja vikna sumarfrí.
En Amanda kom aldrei heim. Og eftir nokkra mánuði fékk Patricio tölvupóst frá dóttur sinni þar sem hún harmaði að hafa logið að honum. Fjölskyldan var komin til Sýrlands, í stríð með hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.
Varð einn af þekktustu liðsmönnum Íslamska ríkisins
Michael Skråmo, eiginmaður Amöndu, varð á þessum árum einn af þekktustu liðsmönnum íslamska ríkisins af þeim sem koma frá Norðurlöndunum. Skråmo var mikilvirkur í því að birta myndir og myndbönd frá vígvöllum Sýrlands, þar sem hann, oft vopnaður og í herklæðnaði, hvatti fólk frá Svíþjóð og Noregi til að koma til Sýrlands og ganga til liðs við samtökin.
Á síðustu árum hafa alls um 300 sænskir ríkisborgarar farið til átakasvæða til að taka þátt í stríði, einkum í Sýrlandi og Írak. Um helmingur þeirra hefur síðan snúið aftur til Svíþjóðar, að mati sænsku öryggislögreglunnar, Säpo.