Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ætlar að náða tugi brotamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Brotamenn sem hafa beðið í meira en þrjú ár eftir afplánun í fangelsi, og hafa ekki gerst sekir um alvarlega glæpi, verða náðaðir samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra. Að minnsta kosti 30 manns gætu hlotið náðun á næstunni.

Um 300 manns bíða eftir að hefja afplánun í fangelsum hér á landi. Ekki hefur tekist að stytta þann boðunarlista að ráði undanfarin ár. Skipaður var starfshópur til þess að reyna að finna lausn á þessum vanda og hefur hann skilað tillögum sínum. Ein þeirra hugmynda er að náða þá sem hafa verið á boðunarlista lengur en í þrjú ár. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar nú að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd.

„Ég ætla að koma fram með þá tillögu að náða tugi manna sem hafa beðið yfir þrjú ár eftir fangelsisafplánun. Þetta eru aðilar sem eru ekki með stórvægileg brot og hafa ekki brotið af sér síðan. Þetta er gert til þess að vinna á þeim langa boðunarlista sem er í fangelsin svo að fangelsiskerfið okkar virki betur.“

Og þetta mun þá bara eiga við um þá sem eru búnir að bíða lengur en í þrjú ár?

„Já. En við teljum að til þess að þetta gagnist sem virkt úrræði til þess að ná niður þessum boðunarlista, þá þurfi að grípa til þessa úrræðis nokkrum sinnum á næstu þremur árum.“

Þarfnast ekki lagabreytingar

Áslaug Arna hefur þegar óskað eftir því við Fangelsismálastofnun, að stofnunin taki saman lista yfir þá sem falla undir þessi skilyrði. Sá listi fer svo fyrir náðunarnefnd áður en Áslaug Arna gerir tillögu um að fólkið verði náðað.

„Já ég býst við því og ég mun þá leggja þá tillögu fyrir ríkisstjórn og senda til forseta.“

Hvaða skilyrði eru þetta sem menn þurfa að uppfylla?

„Menn þurfa að uppfylla þau skilyrði að hafa beðið lengur en í þrjú ár, hafa ekki hlotið dóm fyrir stórfellt brot í skilningi laga, og hafa ekki brotið af sér á þeim tíma sem þeir hafa beðið.“

Þannig að þeir sem hafa framið alvarleg brot, þeir eiga ekki möguleika á náðun, enda bíða þeir væntanlega aldrei í þrjú ár eftir að hefja afplánun?

„Þeim er forgangsraðað fyrst, en þeir munu heldur ekki eiga möguleika á að falla undir þetta úrræði.“

Samfélagsþjónusta og betri nýting

Áslaug Arna segir að þessi breyting krefjist ekki sérstakrar lagabreytingar. Ljóst er að nokkuð margir geta hlotið náðun.

„Það eru yfir 100 manns sem hafa beðið lengur en í þrjú ár. En svo þarf að athuga hverjir falla undir þessi skilyrði. Og það gætu verið allavega yfir 30 manns,“ segir Áslaug Arna.

Sérðu fyrir þér að taka einhvern tímann ákvörðun um að hafna hugmynd um náðun, eða ákveða að náða einhvern sem ekki er á svona lista?

„Náðunarnefndin fer alltaf vel yfir þetta. Og það verður að meta ýmsa þætti, sem hún hefur gert til þessa. Og ég mun leggja þá tillögu sem náðunarnefndin kemur með fyrir ríkisstjórn.“

Starfshópurinn skilaði alls sjö tillögum og Áslaug Arna segir að upp úr þeim sé meðal annars verið að vinna að lagabreytingum sem varða aukna samfélagsþjónustu. Þá sé verið að finna leiðir til þess að nýta fangelsispláss betur.