Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Styrkja innviði landsins eftir óveðrið í desember

02.10.2020 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV
Ríkisstjórnin leggur til auknar fjárveitingar til innviða landsins í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Aukningin er til að bregðast við afleiðingum fárviðrisins í desember í fyrra. Stór hluti fjárveitingarinnar fer í að styrkja náttúrúvárinnviði landsins, sem fá 387,5 milljóna króna viðbótarfjárveitingu.

Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins segir að verkefnið sé hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Fjárveitingin verði meðal annars nýtt til kaupa á vöktunar- og mælabúnaði, hugbúnaði og endurnýjun og uppbyggingu veðursjárkerfis og tilheyrandi aukningar í rekstri. 

Rafmagnsleysi og laskað dreifikerfi

Óveðrið í desember í fyrra verður líklega lengi í minnum haft. Óvissustigi almannavarna var lýst yfir á Norðurlandi vestra og eystra 9. desember þegar veðurspár gáfu vísbendingar um hvers vont veðrið yrði. Daginn eftir var  hættustigi almannavarna lýst yfir og var það í gildi í tæpa viku. Rafmagnslaust var víða og dreifikerfi rafmagns var verulega laskað eftir illviðrið. Ástandið var langverst á Norðurlandi þar sem fjöldi lína, bæði í þéttbýli og heim að sveitabæjum, slitnuðu. 

Þá drápust um hundrað hross í óveðrinu og fram kom í fréttum að fleiri hross hafi ekki drepist í óveðri hér á landi í áratugi. 

Framkvæmdir vegna óveðurs

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að 220 milljónir króna verði varið til framkvæmda sem ráðast þurfi í vegna óveðursins.  Þá fara 220 milljónir í að endurnýja upplýsingagátt vega og upplýsingakerfi um veður og sjólag, endurnýja þurfi öldudufl og fleira. 100 milljónir fara í að auka varaafl við lykilstaði fjarskipta til að tryggja að fjarskipti rofni ekki vegna rafmagnsleysis. 

Þá fari 10 milljónir króna í að efla samhæfingu og stjórnun innviðaátaks í kjölfar óveðursins. Jafnframt fari 40 milljónir króna tímabundið til tveggja ára til að mæta óveðurstengdum verkefnum til styrkingar stjórnunar og samhæfingar innviða á vegum almannavarna. 

60 milljónum verður samkvæmt frumvarpinu veitt til styrkingar á stjórnsýslu, þar af 40 milljónir til Skipulagsstofnunar og 20 milljónir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til að styrkja starfsemi þeirra í tengslum við aðgerðir stjórnvalda vegna óveðursins. Verkefnin eru sögð hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.