Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Stjórnarskrártillagan er spegill okkar mannlífs

Mynd: Listasafn Rvk / Listasafn Rvk

Stjórnarskrártillagan er spegill okkar mannlífs

02.10.2020 - 14:51

Höfundar

Á morgun, laugardag, fer fram Leit að töfrum í Hafnarhúsinu. Þar er á ferðinni verkefni og viðburður sem myndlistarmennirnir Ólafur Ólafsson og Libia Castro hafa staðið fyrir á undanförnum misserum í samstarfi við stóran hóp listafólks og aðgerðasinna sem kalla sig Töfrateymið. Verkefnið hverfist um tillöguna að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland frá árinu 2011. Nú hefur verið samin tónlist við allar 114 greinar tillögunnar. Víðsjá ræddi við framkvæmdastjóra verkefnisins. 

„Við erum að yfirtaka portið í Hafnarhúsinu og þar verður tillagan að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland flutt í tónlistarformi,“ segir Guðný Guðmundsdóttir annar tveggja sýningar- og framkvæmdastjóra verkefnisins Leit að töfrum. 

Tónlistarfólk og tónskáld úr ýmsum áttum hafa tekið að sér að semja tónlist við einstakar greinar Nýju stjórnarskrárinnar, eins og hún er yfirleitt kölluð, en í kjölfar hins pólitíska og efnahagslega hruns árið 2008 var ráðist í ritun nýrrar stjórnarskrár að kröfu almennings. Lykilmarkmiðið var að stuðla að lýðræðislegra og réttlátara samfélagi. Verkefnið vakti heimsathygli en tillagan hefur ekki verið lögfest á Alþingi.

Meðal þeirra sem samið hafa tónlistina eða flytja hana eru Þórunn Gréta Sigurðardóttir, Viktor Orri Árnason, Bjöllukór Tónstofu Valgerðar, Lay Low, Hörður Torfason, Caput-hópurinn, Korter í flog og Dýrfinna Benita og Jón Múli svo aðeins örfá séu nefnd. 

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Rvk
Leitin að nýju stjórnarskránni setur mark sitt á borgarumhverfið.

Fjölradda kór

„Saman höfum við í Töfrateyminu líkt eftir því ferli sem fór fram þegar stjórnarskrártillagan var rituð og þetta er samstarfsverkefni þar sem sem flestar raddir fá að heyrast. Við erum heppin að nú komum við inn í umræðu sem er orðin hávær,“ segir Guðný Guðmundsdóttir og vísar þar til undirskriftasöfnunar sem nú stendur yfir þar sem knúið er á um að Alþingi taki við sér. 

Guðný segir að fyrir hópnum vaki að nota listina til að auka og ýta undir athygli og samræðu um málið. „Og með hughrifum listarinnar og í gegnum aktivismann vonumst við til að ná fram þeirri samræðu.“ Undir þetta tekur Sunna Ástþórsdóttir sem einnig starfar við framkvæmdastjórn verkefnisins. „Hér erum við að færa samfélagslegt málefni inn í heim listarinnar, þetta er samruni,“ segir Sunna og bendir á að öllum sé frjálst að ganga í Töfrateymið. 

Nánar má heyra um Í leit að töfrum hér í viðtalinu fyrir ofan. Viðburðurinn á laugardag stendur frá kl. 12 til 15:30 og færist síðan út á götur borgarinnar. Atburðurinn er samstarf Listahátíðar í Reykjavík, Listasafns Reykjavíkur og Cycle listahátíðarinnar. Allar nánari upplýsingar er að finna hér en nauðsynlegt er að skrá sig í til þátttöku og það er best að gera með tölvupósti til [email protected]

Í viðtalinu hér fyrir ofan við Guðnýju og Sunnu má heyra tónlist eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur, Dýrfinnu Benitu, Viktor Orra Árnason og loks Lay Low sem veitti góðfúslegt leyfi fyrir að demó-útgáfa af lagi hennar við aðfararorð stjórnarskárinnar fengju að hljóma.