„Við erum að yfirtaka portið í Hafnarhúsinu og þar verður tillagan að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland flutt í tónlistarformi,“ segir Guðný Guðmundsdóttir annar tveggja sýningar- og framkvæmdastjóra verkefnisins Leit að töfrum.
Tónlistarfólk og tónskáld úr ýmsum áttum hafa tekið að sér að semja tónlist við einstakar greinar Nýju stjórnarskrárinnar, eins og hún er yfirleitt kölluð, en í kjölfar hins pólitíska og efnahagslega hruns árið 2008 var ráðist í ritun nýrrar stjórnarskrár að kröfu almennings. Lykilmarkmiðið var að stuðla að lýðræðislegra og réttlátara samfélagi. Verkefnið vakti heimsathygli en tillagan hefur ekki verið lögfest á Alþingi.
Meðal þeirra sem samið hafa tónlistina eða flytja hana eru Þórunn Gréta Sigurðardóttir, Viktor Orri Árnason, Bjöllukór Tónstofu Valgerðar, Lay Low, Hörður Torfason, Caput-hópurinn, Korter í flog og Dýrfinna Benita og Jón Múli svo aðeins örfá séu nefnd.