Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir skynsamlegt að reka ríkissjóð með halla næstu ár

Mynd með færslu
 Mynd:
Það er skynsamlegt að reka ríkissjóð með halla næstu ár, því ef ríkið tekur ekki á sig áfallið vegna kórónuveirunnar mun það dreifast ójafnt innan samfélagsins. Þetta segir Gylfi Magnússon, forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá hjálpi mikið til að vextir séu í sögulegu lágmarki.

264 milljarða halli verður á rekstri ríkissjóðs á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í gær. Halli næstu fimm ára gæti orðið 900 milljarðar. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í fréttum í gær að ríkissjóður geti tekið á sig mikinn halla í ár og á næsta ári til að mæta efnahagslegum áföllum vegna COVID-19 faraldursins. Gylfi Magnússon, forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, segir þetta skynsamlega leið.

„Ég held að þetta sé afskaplega skynsamlegt. Auðvitað er ekki skemmtilegt að skuldsetja ríkissjóð en það eru ekki aðrir betri kostir í stöðunni. Þetta er mikið áfall á samfélagið. Og ef að ríkið tekur það ekki á sig að verulegu leyti þá mun það dreifast mjög ójafnt og mjög þungt á suma,“ segir hann.

Í þessu samhengi hjálpi mikið til vextir hér á landi séu sögulega lágir.

„Ríkið mun í raun og veru ekki greiða neina raunvexti af þessu því ríkið getur um þessar mundir tekið lán með um það bil núll prósent raunvöxtum. Eins og staðan er núna þá virðist þetta bara einfaldlega vera tiltölulega auðveld og rökrétt ákvörðun,“ segir hann. 

Þá líti ekki út fyrir að ríkið þurfi að taka erlend lán, þar sem nægur innlendur sparnaður sé til staðar. 

„Það má eiginlega segja að þjóðin hafi alveg svigrúm til að lána sjálfri sér til þess að ríkið geti tekið þennan skell á sig. Og síðan bara rukkar ríkið þjóðina á næstu áratugum til að borga þetta til baka. Þetta er nú svo sem bara hringrás innan íslenska hagkerfisins í krónum,“ segir Gylfi Magnússon.