Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ríkið og sex sveitarfélög stofna Betri samgöngur ohf.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / Eggert Þór Jónsson
Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, hafa gengið frá stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Tilgangur félagsins, sem heitir Betri samgöngur ohf, er að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgönguinnviða í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem er hluti af samgönguáætlun næstu fimmtán ára. Nýja félagið hefur yfirumsjón með framkvæmdunum og fjármögnun þeirra. Félagið mun einnig taka við landi ríkisins að Keldum eða öðru sambærilegu landi og þeim réttindum sem því tengjast.

Ríkið á stærstan hlut í félaginu, eða 75%, en sveitarfélögin ráða yfir 25% hlut sem skiptist eftir stærð þeirra. Félagið á ekki að skila arði. 

Stofnsamningur undirritaður í Hörpu

Stofnsamningurinn var undirritaður af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ásamt borgar- og bæjarstjórum sveitarfélaganna sex og Samtökum sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu í Hörpu í dag. Hluthafasamkomulag og samþykktir félagsins hafa verið samþykktar í sveitarstjórnum allra hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að stórt skref hafi verið stigið með undirrituninni. 

„Í dag var stigið stórt skref að því að koma skriði á metnaðarfulla og langþráða uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Það er sérlega ánægjulegt vegna þess að síðustu ár og áratugi hefur ríkt mikið frost í samskiptum ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum. Með samgöngusáttmálanum var höggvið á hnútinn og stofnun opinbers félags staðfestir samstöðu okkar og samvinnu síðustu mánuði,“ segir Sigurður Ingi. 

Dagur B. Eggertsson. borgarstjóri, segist fagna áfanganum. 

„Stofnun félagsins á að tryggja að undirbúningur og framkvæmd samgöngusáttmálans verði markviss, hröð og góð. Félagið getur verið ómetanlegt í að höfuðborgarsvæðið þróist hraðar í græna átt með tilkomu Borgarlínu, heildstæðu kerfi hjólastíga og því að umferðarmiklar samgönguæðar fari í stokk,“ segir Dagur.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV