Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti innan 30 ára

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stefnt er að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050 í nýrri orkustefnu sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag. Á blaðamannafundi sem haldinn var af því tilefni sagði Þórdís Kolbrún meðal annars að nýrri orkustefnu fylgi skýr framtíðarsýn um sjálfbæra orkuframtíð. 

„Þetta er ekki stefnan mín. Þetta er stefna stjórnmálanna, þetta er orkustefna stjórnmálanna, þettar er orkustefna samfélagsins. Og ég vil að hún lifi stjórnarskipti,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars á blaðamannafundinum í dag.

Þá sagði Þórdís Kolbrún að það séu dýrmæt og mikilvæg tímamót að þverpólitísk sátt hafi náðst um framtíðarsýn, leiðarljós og tólf meginmarkmið Íslands í orkumálum. Á meðal markmiðanna má nefna að stefnt er að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti, að þjóðin njóti ávinnings af orkuauðlindum og að jafnt aðgengi verði að orku um allt land.

Umhverfisáhrif og nýting

Orkustefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og í samráði við hagsmunaaðila. Fulltrúar allra þingflokka auk fjögurra ráðuneyta áttu sæti í starfshópnum sem vann stefnuna. Í fréttatilkynningu segir að einhugur hafi verið um niðurstöðuna.

Markmiðin 12 í orkustefnunni eru eftirfarandi:

 • Orkuþörf samfélags er ávallt uppfyllt
 • Innviðir eru traustir og áfallaþolnir
 • Orkukerfið er fjölbreyttara
 • Ísland er óháð jarðefnaeldsneyti; orkuskipti eru á landi, á hafi og í lofti
 • Orkunýtni er bætt og sóun lágmörkuð
 • Auðlindastraumar eru fjölnýttir
 • Gætt er að náttúruvernd við orkunýtingu
 • Umhverfisáhrif eru lágmörkuð
 • Nýting orkuauðlinda er sjálfbær
 • Þjóðin nýtur ávinnings af orkuauðlindunum
 • Orkumarkaður er virkur og samkeppnishæfur
 • Jafnt aðgengi að orku er um allt landið

Hér má lesa nánar um orkustefnuna.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV