Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Harmræn saga móður sögð með húmor

Mynd: Hörður Sveinsson / Þjóðleikhúsið

Harmræn saga móður sögð með húmor

02.10.2020 - 12:42

Höfundar

„Þetta er greinilega saga sem hún hefur gaman af að segja og það smitast til áhorfenda,“ segir leikhúsrýnir Víðsjár sem telur Ilmi Kristjánsdóttur farast burðarhlutverk Kópavogskróniku vel úr hendi – en hún er einnig annar höfundur leikgerðarinnar eftir bók Kamillu Einarsdóttir.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Árið 2018 kom út skáldsaga, búin þeim óvenjulegu og sjaldgæfu eiginleikum að hrista aðeins upp í lesandanum með því að birta texta á prenti sem lýstu hlutum sem ekki hafði verið sagt frá áður í íslenskum bókmenntum. Í það minnsta ekki á þennan tiltekna máta. Í henni eru afkimar mannlífsins í Kópavogi kannaðir og sagt frá ástarlífi einstæðrar móður á hispurslausan máta. Í bókinni ávarpar móðirin dóttur sína og segir frá bólförum og fíkniefnaneyslu, þetta er á köflum sprenghlægileg bók þar sem til dæmis viský með kanilbragði er borið saman við jólasveinabrund, en líka bók sem dulbýr harmræna atburðarás með húmor. Bakvið kaldhæðnina glittir í manneskju sem virðist mjög fjarlæg sjálfri sér, eigin tilfinningum og líkama, og haldin sjálfseyðingarhvöt, og hefur verið beitt, og beitir sjálfa sig tilfinningalegu ofbeldi, en eins og hún segir sjálf, í Kópavogi er minnimáttarkenndin mannkostur.

Þessi skáldsaga Kamillu Einarsdóttur, Kópavogskrónika, hefur nú ratað upp á svið, í samnefndri leiksýningu, og var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu síðustu helgi eftir langa bið (Covid-faraldrinum tókst að fresta þessari frumsýningu um nærri hálft ár). Höfundar leikgerðar eru Ilmur Kristjánsdóttir og Silja Hauksdóttir, en Ilmur fer einnig með aðalhlutverkið og Silja leikstýrir verkinu. Með þeim til halds og trausts eru Arnmundur Ernst Backman í öllum karlhlutverkum og Þórey Birgisdóttir í öllum aukakvenhlutverkum, þau birtast á sviðinu til að sviðsetja lýsingar sögukonunnar, Arnmundur fyrst og fremst til að leika mismunandi elskhuga, ímyndaða og raunverulega, en Þórey sem ýmsar vinkonur og keppinautar. Sigríður Sunna Reynisdóttir hannaði leikmynd og búninga, Jóhann Bjarni Pálmason sá um lýsingu, hljóðmynd var í höndum Kristjáns Sigmundar Einarssonar og Auður samdi tónlistina. En hvernig tókst þessum hópi til með að gera bókina að leikverki?

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - Þjóðleikhúsið

Arnmundur stendur sig prýðilega í að holdgera gaurana sem verða á vegi sögukonunnar. Hann er mátulega sjarmerandi, nördalegur og sannfærandi í hlutverki þessara sjálfselsku durta. Þórey á einnig mjög fína spretti í sýningunni en burðarhlutverk sýningarinnar er sögukonan sem Ilmur leikur. Bókin er frásögn móður til dóttur og leikritið breytir því ekki, sögukonan er ávallt miðpunktur og fókus verksins. Að sumu leyti er þetta eins og þunglyndari og drykkfelldari útgáfa af bandarísku þáttaseríunni Hvernig ég hitti móður þína (How I met your mother), þar sem foreldrið opinberar í full miklum smáatriðum alla sína bresti og sjálfsefa. Ilmur er ekki óvön því að halda uppi einleikjum, og það er ekki ósanngjarnt að tala um Krónikuna sem einleik með uppbrotum, frekar en leikrit með löngum eintölum, hvernig sem við lítum á það þá er sögukonan sú sem ber verkið. Ilmi ferst það vel úr hendi, þetta er greinilega saga sem hún hefur gaman af að segja og það smitast til áhorfenda.

Hljóðmynd og tónlist passar ágætlega við verkið, Sigríður Sunna var með skemmtilegt búningaval, sem hæfði húmor sögunnar, og steypugrá, jökulblá sviðsmyndin með torfinu í miðju fangaði þessa skemmtilegu blöndu af þjóðlegheitum og borgarlandslagi sem er í verkinu. Kópavogur umlykur allt í því, Hamraborgin háa með hurðir sínar út í tómið, og þegar sögukonan kommentar á falleg trén í Kópavogsdalnum sem vaxa þar sem glæpamenn voru áður teknir af lífi rifjast upp ljótir kaflar í sögu Íslands. Þó svo við séum kirfilega í nútímanum og á djamminu, lekur sagnfræðilegur áhugi sögukonunnar í gegn, og það er athyglisvert hvað hún kýs að rifja upp. Til dæmis landsnefndina sem átti að bæta hag Íslendinga en var nánast einvörðungu skipuð Dönum. Og maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvort sjálfseyðingarhvöt hennar sé vegna einhvers óræðs í fortíðinni, hvort hún sé með frásögn sinni til dóttur sinnar að reyna að slíta einhvern vítahring sem hefur endurtekið sig kynslóð eftir kynslóð – því afar og ömmur barnsins eru áberandi fjarverandi í þessari sögu og við vitum ekki fyllilega af hverju.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - Þjóðleikhúsið

Það er ekki auðvelt að gera leikgerð upp úr frásögn í fyrstu persónu og í leikskránni las ég að höfundarnir höfðu velt fyrir sér ýmsum nálgunum, til dæmis söngleik, sem mér þótti skemmtileg vangavelta en skil þó ágætlega hvers vegna hefðbundnari leið var farin. Ekki allt ratar úr bók á svið af skiljanlegum ástæðum, en þó má velta fyrir sér þegar efniviðurinn er djörf og einlæg bók, hvort uppfærsla í Þjóðleikhúsinu verði örlítið teprulegri. Slíkt virðist ekki vera í kynferðismálum, en þó er stokkið yfir nærri alla umræðu um fíkniefni, og þó svo við sjáum sviðsetningu þar sem hvítu dufti er stráð yfir gólf, fékk ég á tilfinningu að höfundar væru feimnir við að nefna efnin á nafn. En hvítt duft og hvítt duft er ekki alltaf sami hluturinn auðvitað, eins og ég held að flestir leikhúsgestanna hafi vitað.

Tengdar fréttir

Leiklist

Leggja leyndarmálin á borðið í leikgerð Kópavogskróniku

Leiklist

Leikgerð Kópavogskróniku var áreynslulaus getnaður

Bókmenntir

„Ekki mínar uppáferðir og fyllirí“

Bókmenntir

Bömmer sem er samt upplífgandi