Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa aldrei greitt meiri dagpeninga úr sjúkrasjóði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna hafa aukist mikið undanfarið og greiðslur vegna þjónustu sálfræðinga og geðlækna eru þar áberandi. Eining Iðja á Akureyri hefur aldrei greitt meiri dagpeninga úr sjúkrasjóði félagsmanna en nú í september.

Helsta hlutverk sjúkrasjóðs stéttarfélaga er að mæta tekjutapi launamanna sem missa starfsorku tímabundið og hafa fullnýtt veikindarétt hjá vinnuveitanda.

Aldrei greitt meiri sjúkradagpeninga

Samkvæmt upplýsingum frá Starfsgreinasambandinu hafa greiðslur sjúkradagpeninga aukist hjá stéttarfélögum undanfarið. Mismikið þó eftir landshlutum. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar Iðju, segir að nýliðinn september sé metmánuður hjá þeim hvað þetta varðar. „Það hafa aldrei verið hærri greiðslur fyrir dagpeninga út úr sjúkrasjóðnum. Og það hefur vaxið hægt og bítandi reyndar núna seinni part ársins."

Auknar áhyggjur og þunglyndi

Hann segir að við aukið atvinnuleysi sé alltaf meiri ásókn í sjúkrasjóði. En nú séu áberandi einhvers konar þyngsli í samfélaginu, eins og hann orðar það, auknar áhyggjur og þunglyndi. Og þá reyni á sjúkrasjóðinn. „Við til dæmis erum með styrki sem eru til þess að borga niður ef fólk fer til sálfræðinga eða geðlækna. Sá þáttur hefur vaxið gríðarlega á þessu ári. Þannig að bara COVID og allt sem snýr að því hefur haft mikil áhrif á andlega líðan fólks."    

Óttast að sama þróun haldi áfram næstu mánuði

Björn óttast að þessi sama þróun haldi áfram næstu mánuði og greiðslur félagsins úr sjúkrasjóði verði þær hæstu sem nokkru sinni hafi sést. „Þetta er bara vaxandi og verður örugglega stærsta árið okkar hingað til."