Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm fersk og frískandi fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Secretly Canadian - Facebook

Fimm fersk og frískandi fyrir helgina

02.10.2020 - 12:35

Höfundar

Öll froðudiskótek verða lokuð um helgina og þess vegna er um að gera að nota hana vel, til dæmis með því að liggja flöt á sófanum og láta sér leiðast óbærilega með góða tónlist frá fimm á föstudegi í eyrunum.

Fleet Foxes – Can I Believe You

Seattle-bandið Fleet Foxes gaf út nýju plötuna sína, Shore, óvænt nú í haustbyrjun. Fyrsti söngull er hið frábæra Can I Belive You þar sem þeir hitta naglann beint á höfuðið sem er eins gott af því þegar þeir gera það ekki eru þeir svo gjörsamlega óþolandi tilgerðalegir og leiðinlegir að sumir hafa þurft að labba út úr Hörpu af tónleikum með þeim.


Kevin Morby – Wander

Ameríski tónlistarmaðurinn Kevin Morby er fluttur heim til Kansas City frá Los Angeles og tilkynnti í leiðinni að hans sjötta plata væri á leiðinni. Hún á að heita Sundowner og hljóma eins og ljósaskipti í Miðríkjunum sem er vissulega skemmtilegt markmið hjá honum en þessir listamenn eru nottlega soldið klikkaðir.


Porridge Radio – 7 Seconds

Brighton-bandið Porridge Radio sendi frá sér frábæra plötu í mars sem heitir Every Bad og var tilnefnd til Mercury-verðlauna. Í nýja laginu sínu sem er ekki á plötunni eru sveitin alveg í karakter með sinn kæruleysislega mér er alveg sama hvort þú fílar þetta indírokktón sem er eiginlega frábær.


Romy – Lifetime

Það þekkja allir Romy Madley Croft úr hljómsveitinni the xx en nú hefur hún sent frá sér lagið Lifetime sem er fyrsti söngull af væntanlegri sólóplötu. Lagið er aðeins poppaðara en maður á að venjast þegar maður heyrir röddina í Romy en alls ekki á slæman hátt.


ARTBAT, Sailor & I – Best Of Me

Úkraínski dúettinn Artbat fær sænska tónlistarmanninn Sailor & I í samstarf í nýja bangernum sínum Best Of Me sem er að tryggja stöðu þeirra sem súperstjörnur í EDM-senunni. Lagið frá Úkraínumönnunum er virkilega grípandi og skemmtilegur dansslagari sem inniheldur öll helstu fjörefnin fyrir froðudiskótek en nær líka að vera aðgengilegur fyrir útvarp án þess að detta í alltof mikinn ost.


Fimman á Spottanum