Mynd: Kveikur - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Endurskoðun sýna hjá Krabbameinsfélaginu lokið
02.10.2020 - 09:14
Endurskoðun sýna í kjölfar alvarlegs atviks á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins er lokið. Þetta kemur fram í frétt á vef félagsins. Alls voru 4.950 sýni endurskoðuð, en í upphafi var áætlað að endurskoða þyrfti sex þúsund sýni.
209 konur voru kallaðar inn til frekari skoðunar, eða 4,2 prósent tilfella.
Upphaf málsins má rekja til alvarlegs atviks á Leitarstöð árið 2018 sem upp kom í sumar. Atvikið var þá tilkynnt til Embættis landlæknis og ráðist í að endurskoða fjölda sýna þrjú ár aftur í tímann.
Í fréttinni segir að Krabbameinsfélagið harmi hið alvarlega atvik sem varð á Leitarstöðinni. Embætti landlæknis vinnur nú að úttekt á því, sem og gæðaúttekt á starfsemi Leitarstöðvar. Félagið vinni með embættinu að úttektinni.