Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Átta ferðum af níu aflýst

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Af þeim níu flugferðum sem fara átti á vegum Icelandair frá Keflavíkurflugvelli í dag voru átta felldar niður. Eina flugferð félagsins í dag var til Kaupmannahafnar í morgun. Tvær ferðir á vegum Icelandair eru fyrirhugaðar á morgun, önnur til Amsterdam og hin til Boston. 

Tíu ferðir voru á áætlun félagsins á morgun. Á sunnudaginn voru áformaðar ellefu ferðir til tíu áfangastaða. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að átta þeirra hafi verið felldar niður og að áætlun félagsins sé metin dag frá degi. 

Þegar brottfarir Icelandair undanfarna daga eru skoðaðar er sömu sögu að segja. Á miðvikudaginn voru átta brottfarir fyrirhugaðar og öllum aflýst nema tveimur. Á þriðjudaginn átti að fara átta ferðir, ein var farin til Kaupmannahafnar og á mánudaginn átti að fara sex ferðir en ein var farin og sú var einnig til Kaupmannahafnar.

Nokkur erlend flugfélög halda uppi ferðum til og frá landinu. Flestar ferðirnar hafa  verið á vegum Easy Jet sem flýgur á milli Íslands og tveggja áfangastaða í Bretlandi. Félagið hefur farið átta ferðir undanfarna viku, þar af þrjár ferðir í gær sem voru fleiri ferðir en Icelandair fór þann daginn.

Þrjár ferðir hafa verið á vegum Lufthansa undanfarna viku, Wizz Air hefur flogið tvær ferðir og British Airways, Air Baltic og SAS eina hvert félag.

„Það eru margir sem vilja og þurfa að ferðast og okkur hefur tekist að koma okkar farþegum á áfangastað með því að bjóða upp á tengingar í gegnum þá áfangastaði sem við förum þó til. Það er töluverð flugumferð í Evrópu, þar eru ekki jafn strangar takmarkanir og hér á landi og miklu auðveldara að komast á milli landa,“ segir Ásdís Ýr.