Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Áfram ríkir sú helstefna að halda fólki í fátækt“

Mynd með færslu
 Mynd:
Með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar ríkir áfram sú helstefna að halda fólki í fátækt. Þetta segir formaður Öryrkjabandalagsins. Hún óttast að biðraðir hjá hjálparsamtökum eigi eftir að lengjast.

Fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt í gær. Samkvæmt því aukast útgjöld ríkissjóðs á sama tíma og tekjur dragast saman.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að frumvarpið sé mikil vonbrigði þegar kemur að greiðslum til öryrkja.

„Við erum skilin eftir. Það eru okkar fyrstu viðbrögð. Og það er vond upplifun. Og það er ljóst að áfram ríkir sú helstefna að halda fólki í fátækt.“

Þyngsta höggið

Þuríður Harpa segir að engu sé bætt inn í málaflokkinn, og það þýði að bilið milli lágmarkslauna og örorkubóta haldi áfram að breikka. Frá og með áramótum fái öryrkjar 233 þúsund krónur í vasann á mánuði, eftir skatt. Ljóst sé að margir öryrkjar eigi eftir að eiga erfitt með að láta enda ná saman.

„Við vorum auðvitað að vonast eftir því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur legði fram í sínu síðasta fjárlagafrumvarpi einhverjar úrbætur. Að við sæjum tekin skref í þá átt að útrýma fátækt í landinu. En það er ekki að sjá. Og ég er mjög hrædd um að við komum til með að sjá biðraðir hjálparsamtaka lengjast enn frekar.“

En nú er djúp kreppa vegna faraldursins, þurfa ekki öryrkjar að taka á sig högg eins og aðrir hópar?

„Öryrkjar hafa alltaf tekið á sig þyngsta höggið, vegna þess að framfærsla og örorkugreiðslur eru svo lágar, að það má svo lítið minnka það sem þau fá. Í dag sitjum við uppi með bil á milli lágmarkslauna og örorkulífeyris upp á rúmlega 80 þúsund. Og við höfum stutt verkalýðshreyfinguna, sem hefur kallað eftir hækkun atvinnuleysisbóta, og styðjum það heils hugar. Af því að það er ekki hægt að lifa af atvinnuleysisbótunum. Hvað má þá segja um örorkugreiðslurnar? Þess vegna höfum við kallað eftir því að það verði að hækka örorkugreiðslurnar, en við erum ekki að sjá að það sé gert. Það þýðir bara að fátæktinni verður viðhaldið, og við höfum miklar áhyggjur af því,“ segir Þuríður Harpa.

Fagurgali

Öryrkjabandalagið sendi frá sér tilkynningu í gær, eftir að fjárlagafrumvarpið var kynnt. Tilkynningin er svohljóðandi:

„Öryrkjabandalag Íslands lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli öryrkjum áfram að treysta á matargjafir til að lifa af. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki að finna neina stefnubreytingu frá þeirri helstefnu að halda öryrkjum í fátækt.  Hafi einhver átt von á að í því frumvarpi leyndust efndir yfirlýsinga Katrínar sem stjórnarandstæðings, frá því fyrir um 4 árum, verður viðkomandi fyrir vonbrigðum. Hækkun örorkulífeyris verður 3,6% um næstu áramót. Fátækt fólk þarf því enn að bíða.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins:

„Við leyfðum okkur að vona, en það er nú ljóst að engin breyting verður, fagurgali ríkisstjórnarinnar um að útrýma fátækt eru bara það, fagurgali. Enn eitt árið er öryrkjum haldið rígföstum í fátækragildru og enn breikkar bilið milli örorkulífeyris og lágmarkstekjutrygginar. Um næstu áramót verður örorkulífeyrir 86 þúsund krónum lægri.“

Eftir þessa hækkun verður framfærsluviðmið almannatrygginga 265.044 krónur fyrir skatt, sem, að teknu tilliti til þeirra skattkerfisbreytinga sem koma til framkvæmda um áramótin, mun skila rétt tæpum 233 þúsund krónum í vasa þeirra sem lifa af örorkulífeyri.“