Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Verða að hlaupa hraðar og gera betur

01.10.2020 - 11:40
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Við þurfum að hlaupa hraðar og gera betur, skapa meiri verðmæti ef við ætlum að rísa undir þessum lífskjörum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali um fjárlagafrumvarp næsta árs og horfur í efnahagsmálum á næstu árum. Hann segir mikilvægt að laða fram fjárfestingu, leggja fé í nýsköpunarsjóð og sá til framtíðar.

Bjarni segir í viðtali við Höskuld Kára Schram fréttamann að ríkissjóður geti tekið á sig mikinn halla í ár og á næsta ári til að mæta efnahagslegum áföllum COVID-19 faraldursins. Það verði hins vegar krefjandi verkefni að stöðva skuldasöfnun til framtíðar.

Útgjöld ríkissjóðs aukast og tekjur dragast saman. „Þrátt fyrir það þá teljum við efnahagslega verjandi og skynsamlegt að fara í fjárfestingarátak. Við erum að boða sókn á sama tíma og það er samdráttur hjá okkur. Það er langlíklegasta leiðin til að við fáum einhverja viðspyrnu,“ segir Bjarni. Hann segir að líka eigi að beita skattalegum úrræðum til að ýta undir einkafjárfestingu. Hann segir að harkalegur niðurskurður núna myndi dýpka kreppuna.

Fjármálaráðherra með fjárlagafrumvarpið - Mynd: Höskuldur Kári Schram / RÚV
Blaðamannafundur fjármálaráðherra í heild sinni.

Við erum mjög háð því að hagvöxtur taki við sér og því eru allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hugsaðar til þess að skapa eitthvað nýtt, segir Bjarni. Markmiðið sé að byggja upp sterkara Ísland, Ísland 2.0.

Bjarni segir að ef ekki rætist úr stöðunni þá þurfi að bregðast við því. Ef hagvöxtur tekur ekki við sér þurfi að sníða stakk eftir nýjum vexti. „Við erum ofboðslega háð því að endurheimta landsframleiðsluna.“ Bjarni segir að gera verði ráðstafanir upp á ríflega 30 milljarða króna á ári eftir nokkur ár til að draga úr skuldasöfnun, það sé hægt að gera skynsamlega og með ódýrari hætti í rekstri ríkissjóðs upp á þúsund milljarða á ári.