Talsvert um vökvavandamál og yfirlið hjá sjúklingum

01.10.2020 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Útskrifa þarf 35 einstaklinga af Landspítala, sem þurfa ekki að vera þar, til að anna þriðju bylgju faraldursins. Yfirmaður smitsjúkdómadeildar segir að ef það takist ekki og tilvikum fjölgi með sama hraða og undanfarið skapist vandræði. Vandaveltur séu um hvort einkenni sjúklinga séu að breytast.

„Þetta er áskorun“

Þórólfur segir að hertar aðgerðir ráðist af getu Landspítalans til að takast á við aukin veikindi, en forstjórinn segir spítalann vel í stakk búinn til þess. Losa þarf um 35 pláss með því að vísa sjúklingum á hjúkrunarheimili og styrkja heimahjúkrun.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala, segir afar brýnt að leysa fráflæðisvanda spítalans sem fyrst. „Þetta er áskorun, ég ætla ekki að draga dul yfir það. Ef að tilfellum fjölgar með viðlíka hraða og við erum að sjá hingað til og ekkert annað breytist þá lendum við í vandræðum,“ segir hann. Búið er að loka níu af nítján skurðstofum spítalans en bráðaaðgerðum er áfram sinnt. 

Vangaveltur hvort einkenni séu að breytast

Þrettán eru á spítala með Covid-19, tveir voru lagðir inn í dag og tveir eru á öndunarvél. Núna eru um 30 undir nánu eftirliti með meiri einkenni en aðrir. „Líðan sjúklinga er almennt að þróast með viðlíka hætti og í vor. Það er ákveðin hluti fólks sem verður mjög slappur og það er talsvert um vökvavandamál og yfirlið hjá fólki og mikill slappleiki. Það er vangaveltur hvort það sé aðeins breytileiki í þessu. Okkur finnst meira um vökva og meltingarfæravandamál en það kann bara að vera tilviljun,“ segir Már jafnframt.

Minni hraði í samfélaginu í vor leiddi til þess að minna var að gera á gjörgæslunni og það gaf spítalanum svigrúm til að sinna covid-smituðum. „Það er erfitt að reka gjörgæslurnar í dag með venjuleg vandamál og Covid að auki,“ segir hann.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi