Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Spara ríkinu með heilbrigðisþjónustu í gegnum netið

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Talmeinafræðingur segir Sjúkratryggingar geta sparað háar fjárhæðir með fjarþjónustu. Hundruð milljóna fara í ferðakostnað árlega. Hann segir fimm talmeinafræðinga hafa þannig sparað nærri 50 milljónir á þremur árum. 

Stutt úr Búðardal í Aðalstræti

Hann Viðar Örn Kristjánsson, fimm ára, býr í Búðardal og þaðan er langur vegur að sækja sér heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur eða þá fyrir talmeinafræðing í þessu tilfelli að fara þangað. Í dag var hann í tíma hjá Tinnu Sigurðardóttur talmeinafræðingi og framkvæmdastjóri Tröppu þjónustu. Hún var stödd í Aðalstræti í Reykjavík og hann heima í Búðardal. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Hann var meðal annars góður að finna rímorð og gladdist við hrósi frá Tinnu. 

„Stærstur hluti okkar þjónustu er í gegnum netið en skjólstæðingarnir búa víðs vegar um landið bæði á höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðinni,“ segir Tinna. 

Er árangur er jafngóður?

„Árangur er jafngóður og það eru margar rannsóknir sem sýna fram á það.“

48 milljónir á þremur árum vegna 350 barna

Í fyrra greiddu Sjúkratryggingar Íslands rúman hálfan milljarð króna eða 546 milljónir króna í ferðakostnað vegna heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar.

Fimm talmeinafræðingar starfa í Tröppu þjónustu og hafa þeir reiknað út að síðast liðin þrjú ár hafi þau sparað Sjúkratryggingum 48 milljónir króna vegna þeirra 350 barna sem þeir hafa þjónustað síðustu þrjú ár. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

„Við erum að spara ferðakostnað, dagpeninga og rask, launakostnað ef fólk þarf að taka sér frí úr vinnu til þess að fara í þessi ferðalög.“

Tinna segir að það sé engin spurning um að leggja eigi meiri áherslu á fjarþjónustu. 

„Tæknin er til staðar. Og þetta er bara spurning um hugsunarhátt og að þróa nýtt verklag.“