Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skriður að komast á rannsókn olíumengunar á Hofsósi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Í dag leggur Umhverfisstofnun mat á þær hreinsunaraðgerðir sem gripið hefur verið til vegna olíumengunar á Hofsósi og hvaða ráðstafana er þörf til viðbótar. Sveitarstjórinn í Skagafirði gagnrýnir seinagang stofnunarinnar og hefur sveitarfélagið ákveðið að hefja sjálfstæða rannsókn.

Mengunin í kjölfar olíuleka úr geymi bensínstöðvar N1 á Hofsósi seint á síðasta ári hefur valdið miklum vandræðum. Meðal annars var íbúðarhús  dæmt óíbúðarhæft og veitingastaður hefur verið lokaður síðan í febrúar vegna mengunar. N1 hefur ráðist í ýmsar mótvægisaðgerðir. Leka olíutanknum var skipt úr fyrir nýjan, mengaður jarðvegur við stöðina fjarlægður og nýjar eldsneytisdælur settar upp. Þá hefur N1 boðið húseigendum að lofta út með sérstökum búnaði.

Gagnrýna Umhverfisstofnun fyrir að grípa ekki inn í

Byggðarráð Skagafjarðar hefur ítrekað fjallað um þetta mál og meðal annars gagnrýnt Umhverfisstofnun fyrir að grípa ekki inn í. Þá hefur komið fram að N1 tilkynnti mengunartjónið ekki með skýrum hætti til Umhverfisstofnunar. „Það þarf með einhverjum hætti að fá niðurstöðu í það hvað umfang mengunarinnar er mikið og hver áhrifin eru,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri.

Óþolandi óvissa fyrir íbúa á Hofsósi

Byggðarráð hefur nú ákveðið að ráða Eflu verkfræðistofu til að gera slíka úttekt. Það sé mikil lykt í húsum í nágrenni bensínstöðvarinnar og þá þurfi að rannsaka hvort jarðvegur sé mengaður. Það sé ekki hægt fyrir íbúa á Hofsósi að búa við þá óvissu að vita ekki hvort eða hvernig gripið verði inn í þetta ástand. „Þetta er náttúrulega alls óviðunandi ástand,“ segir Sigfús. „Að íbúar hafi þuft að hrökklast af heimilum og rekstraraðilar þurft að stöðvað sína starfsemi.“

Umhverfisstofnun fundar um málið í dag

Helga Rut Arnarsdóttir, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að þetta mál hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og yrði tekið fyrir á fundi þar seinna í dag. Aflað hefði verið þeirra gagna sem fyrir lágu frá N1 og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra til að leggja mat á þær hreinsunaraðgerðir sem gripið hefði verið til og hvort og þá hvaða ráðstafanir þyrfti til viðbótar. Helga segir að afstaða Umhverfisstofnunar muni liggja fyrir á næstu dögum.