Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skorað á ráðherra að bregðast við einangrun fanga

Mynd með færslu
 Mynd:
Nú þegar þarf að gera ráðstafanir vegna mikillar einangrunar og innilokunar sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur valdið í fangelsum landsins. Þetta kemur fram í áskorun Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna, um bætt fangelsismál og betrun, til dómsmálaráðherra.

Dómsmálaráðherra er minnt á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna því dæmi séu um að börn fái ekki að hitta foreldri sitt í marga mánuði. Aðskilnaðarkvíði hefur gert vart við sig hjá eldri börnum og það þekkist að yngri börn séu tekin að gleyma foreldri sínu.

Að sögn Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns Afstöðu, gerðu fangelsin þegar ráðstafanir til að sporna við útbreiðslu faraldursins. Miklar takmarkanir vörðu í um þrjá mánuði þegar öll leyfi úr fangelsum voru afnumin og heimsóknir skertar verulega.

Dregið úr þjónustu og heimsóknum

Allur samgangur við ástvini er enn í algjöru lágmarki, segir Guðmundur. Sömuleiðis hafi dregið verulega úr annarri þjónustu, til dæmis hjá geðheilbrigðisteymi, fangapresti, AA samtökunum og Afstöðu.

Páll Winkel, forstjóri fangelsismálastofnunar, segir rétt að heimsóknir í fangelsin séu takmarkaðar við einn náinn aðstandanda ásamt börnum. Páll kveðst skilja vel að staðan sé erfið fyrir fanga en reynt sé að draga úr áhrifum og einangrun eins og hægt er.

Til að mynda hafi öll sérfræðivinna verið færð í fjarfundabúnað, að undanskildu geðheilsuteyminu sem heimsæki fangelsin einu sinni í viku. Þá sé streymt gegnum sjónvörp, tölvur eða annan fjarskiptabúnað vistmanna.

Ótti og pirringur eykst

Guðmundur Ingi kveður fanga almennt ekki með tölvur og því aukist einangrun þeirra mjög á tímum kórónuveirufaraldursins. Ótti og pirringur magnist daglega hjá fjölskyldum fanga en einn mikilvægasti hluti endurhæfingarvistar felist í að tækifærum til að vera með fjölskyldum sínum.

Afstaða lýsir yfir áhyggjum af því að þær skerðingar sem aðstandendur fanga þurfi að þola geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Formaður Afstöðu segir takmarkanirnar mjög harðar og bitna á andlegri líðan fanga.

Þeir séu frelsissviptir og búi því við meiri einangrun fyrir vikið sem geri afplánunina þungbærari en vanalega. Þótt Fangelsismálastofnun leyfi vikulegar heimsóknir náins aðstandanda séu reglurnar strangar og fólk vilji ekki koma með börnin sín í fangelsin.

Mildari reglur annars staðar á Norðurlöndum

Guðmundur segir fanga hafa nýtt dagsleyfi til að heimsækja börnin sín, en þau leyfi hafi ekki verið veitt frá því faraldurinn braust út. Að sögn Guðmundar eru reglurnar mildari annars staðar á Norðurlöndum en ljóst sé að koma þurfi fram með nýjar hugmyndir til að gera fangavistina að endurhæfingu frekar en refsingu.

Fangelsi annars staðar á Norðurlöndum hafi verið að auka notkun rafrænna úrræða. Páll Winkel álítur að viðhorf almennings til fólks í afplánun hafi mildast mjög á síðari árum sem hann segir vera ánægjulega þróun.

Guðmundur segist ætla að funda með Páli um mögulegar breytingar því ekki sé lengur hægt að leggja þetta á aðstandendur og börn fanga.