Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sigurður Ingi uppskar hlátrasköll úr þingsal

01.10.2020 - 21:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Fomaður Miðflokksins sagði í sinni ræðu að stefna ríkisstjórnarinnar væri stefna Vinstri grænna. Formaður Samfylkingarinnar sagði að þessi stefna væri hægri stefna Sjálfstæðisflokksins. Svarið liggur auðvitað í augum uppi að stefna þessarar ríkisstjórnar er stefna Framsóknarflokksins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og uppskar hlátrasköll úr þingsal.
Mynd: rúv / rúv

Þá sagði hann að formaður Samfylkingar hefði lýst fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar, þegar hann lýsti því fjárfestingarátaki sem Samfylkingin myndi ráðast í. „Þannig ræðan mín er ónýt, en ég ætla samt að fara í nokkra hluti,“ sagði hann. 

„Atvinna, atvinna, atvinna“

Hann sagði að vinnan á Alþingi næstu vikur og mánuði snerist um að standa vörð um störf og skapa ný. Nú væru viðamikil mennta- og starfsúrræði framundan fyrir þá sem misstu vinnuna. Til stæði að skapa störf og ný tækifæri: „Verkefnið er, fyrst og fremst, atvinna, atvinna, atvinna.“

Hann ræddi sérstaklega „metnaðarfulla framtíðarsýn“ í fimmtán ára samgönguáætlun og sagði samgönguframkvæmdir næstu ára skapa 8.700 störf einar og sér. 

„Viðamikil mennta- og starfsúrræði eru framundan fyrir þá sem missa vinnuna auk áherslunnar á að skapa ný störf og ný tækifæri. Það á ekki síst við um á þeim svæðum sem hafa orðið harðast úti vegna frosts í ferðaþjónustu, atvinnugreininni sem hefur auk landbúnaðar og sjávarútvegs verið lífæðin í byggðum landsins,“ sagði Sigurður. 

„Í staðinn fengum við varnarræðu ríkisstjórnarinnar“

„Hér áttum við að heyra stefnuræðu forsætisráðherra. En í staðinn fengum við varnarræðu ríkisstjórnarinnar. Uppfulla af réttlætingu yfir því að ráðherrarnir fóru þvert gegn eigin yfirlýsingum í upphafi faraldursins, um að gera meira en minna,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í svari við stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. 

Mynd: rúv / rúv

Þorgerður sakaði Vinstri græna um að standa fyrir grænni framtíð en kjósa með blárri fortíð. „Þetta er flokkurinn sem segist vera á móti hvalveiðum og vill uppfæra sjávarútvegskerfið, en gerir ekkert í því. Flokkurinn sem segist vilja mæta flóttamannavandanum af mannúð, en hefur bara sýnt hið gagnstæða. Við vitum að það mun ekki breytast á vakt þessarar ríkisstjórnar,“ sagði hún.

Þá sagði hún að tillagan sem nú lægi fyrir um breytingu á auðlindaákvæði í stjórnarskrá væri merkingarlaus og lýsti yfir þungum áhyggjum af efnahagsástandinu. Þorgerður sagði vanta samræmi milli sóttvarnaráðstafana og efnahagsákvarðana og sagðist óttast að ríkisstjórnin byði þjóðinni upp á langvarandi kreppu.