Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samdráttur á flestum sviðum en bjartara framundan

Hönd að hrifsa stafla af evrum
 Mynd: Svilen Milev www.efffective.com - Freeimages
Einn mesti samdráttur landsframleiðslu á Íslandi í heila öld blasir við á árinu 2020. Horfur eru á að landsframleiðslan dragist saman um allt að 7,6%. Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki og getur átt eftir að aukast. Verðbólga ársins mælist um 2,8%.

Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands fyrir árin 2020 til 2026. Þjóðarútgjöld gætu dregist saman um 3,6% á árinu að mati Hagstofunnar. Samdráttinn megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru enda hefur atvinnuleysi aukist verulega og ferðaþjónustan er nánast lömuð.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi ársins verði allt að 7,8% en kaupmáttur launa er álitinn aukast um 3% á árinu vegna kjarasamningsbundinna hækkana.

Fjárhagsleg staða heimila og fyrirtækja var almennt góð við upphaf faraldursins en hann hefur þó haft talsverð áhrif á stöðu þeirra. Einnig segir Hagstofan mikla óvissu um framhaldið.

Stjórnvöld og Seðlabanki hafi þó gengið til aðgerða til að minnka höggið auk þess sem eiginfjárstaða banka sé sterk sem gefi þeim svigrúm til að takast á við tap af útlánum.

Vegna aukins atvinnuleysis er búist við rýrnun í einkaneyslu sem geti numið allt að 5%. Þó er búist við bata þegar á næsta ári með vexti í landsframleiðslu sem nemur 3,9 af hundraði og viðlíka aukningu í þjóðarútgjöldum. Þó gerir Hagstofan ráð fyrir áframhaldandi atvinnuleysi árið 2021 eða tæpum sjö prósentum. Atvinnuleysið fari þó minnkandi eftir það.

Útflutningur virðist ætla að dragast saman um 30% á þessu ári en innflutningur hefur einnig minnkað þannig að viðskiptaafgangur ársins gæti numið 1,8% af vergri landsframleiðslu. Búist er við að til ársins 2026 geti hann haldist jákvæður.

Einnig er gert ráð fyrir vexti innan ferðaþjónustunnar þegar á næsta ári, en rýrnun útflutningsverðmæta má að stórum hluta rekja til fækkunar ferðamanna. Einnig hefur minna verið flutt út af sjávarafurðum, áli og öðrum vörum en undanfarin ár.

Hagstofan virðist gera ráð fyrir að ferðaþjónustan nái fyrri styrk fyrir árið 2026 og það rétti smám saman af stöðu útflutningsins. Hagstofan býst við að einkaneysla aukist þegar á næsta ári um 4,2%, ríflega 3% árið eftir og að meðaltali um 2,5% eftir það. Samneysla eykst um tæp þrjú prósent í ár og um tæp tvö prósent út spátíma Hagstofunnar.

Allt stefnir í að verðbólga ársins verði um 2,8% og haldist svipuð á næsta ári en eftir það aukist líkur á að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans náist. Verulegur vöxtur verður í opinberri fjárfestingu á árinu 2020, einkum á seinni hluta árs, en þrátt fyrir það kreppir að í fjárfestingum almennt sem nemur tæpum níu af hundraði.

Eyjólfur hressist nokkuð þegar á næsta ári að mati Hagstofunnar vegna aukinnar fjárfestingar innan atvinnuveganna. Vöxtinn innan opinbera kerfisins megi helst rekja til vegaframkvæmda og komu nýrrar Vestmannaeyjaferju.

Fjárfestingar í íbúðarhúsnæði hafa dregist saman um 14% á fyrri hluta ársins 2020 en hafa ber í huga að mikið líf hefur verið á íbúðamarkaði undanfarin fjögur ár. Á síðasta ári jókst íbúðafjárfesting um 31% sem var hámark síðustu ára. Hagstofan gerir ráð fyrir að samdrátturinn haldi áfram út árið og geti teygt sig inn á árið 2021.

Sérfræðingar Hagstofunnar benda á að allmargir óvissuþættir geti haft áhrif á framvindu spárinnar. Helstir teljast vera framvinda heimsfaraldurs kórónuveirunnar, þróun utanríkisviðskipta, umsvif og efnahagsþróun í heiminum almennt. Auk þess er framvinda fjárfestinga almennt og á íbúðamarkaði óvissuþáttur sem taka þurfi tillit til.